151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum um sóttvarnalög eða hluta af endurskoðun sóttvarnalaga og nefndarálit velferðarnefndar en ég skrifaði undir það með fyrirvara sem ég geri grein fyrir hér í ræðu. Umræðan í nefndinni var að mörgu leyti merkileg og ég held að einna merkilegust hafi hún verið vegna allra þeirra lögfræðinga sem komu fyrir nefndina til að ræða málið og allra þeirra lögfræðinga sem unnu aukalega með nefndinni. Ég varð eiginlega gáttaður á því hvað hægt er að teygja og toga og tala mikið um einfalda hluti, ég var gjörsamlega hættur að botna í þessu, en svo varð það kannski niðurstaðan að taka eitt orð eða eina setningu út og þá var allt komið í lag. Þetta sýnir okkur kannski hversu flókin lögfræði er en ég hef á tilfinningunni að ef tómir lögfræðingar hefðu verið í nefndinni hefði málið aldrei verið afgreitt. Það eru kannski óþarfa áhyggjur en ég fékk það einhvern veginn á tilfinninguna. Sem betur fer erum við búin að ná þessu máli út úr nefndinni og við hefðum þurft að vera búin að því fyrir löngu.

Fyrir ári, þegar veiran fór af stað, vorum við að stíga ný skref, við vissum ekki eitt né neitt. Því miður voru ýmsar rangar ákvarðanir teknar og ég verð að benda sérstaklega á það að í öllum þeim umræðum sem þá fóru af stað kom sú kenning fljótlega fram hjá formanni Flokks fólksins, Ingu Sæland, að loka ætti landamærunum, hleypa veirunni bara ekki inn. Það átti ekki upp á pallborðið á þeim tímapunkti og endaði með því að heill Kastljóssþáttur snerist um þá arfavitlausu hugmynd hennar. En í dag sjáum við að það hefði verið hárrétt ákvörðun. Við sáum það í vor að okkur tókst með ótrúlegum samtakamætti að losa okkur við veiruna með því að standa saman öll sem eitt þegar við sáum hvernig ástandið var orðið á sjúkrahúsunum og álagið á læknastéttina og hjúkrunarfólkið, og ber að þakka hve frábærlega vel það fólk stóð sig við gífurlega erfiðar aðstæður. Við vitum afleiðingarnar. Við vitum að það eru um 30 manns sem hafa dáið út af veirunni. Ef við hefðum lokað í vor, hver væri staðan þá hjá okkur í dag? Spáið í það eitt augnablik. Ég hef heyrt talað um að kostnaðurinn á dag sé 1–3 milljarðar. Spáið í það ef landinu hefði verið lokað á þessum tíma, ef ráðherra og ríkisstjórn hefðu bara haft þau völd að loka landamærunum svo að veiran kæmist ekki inn. Þá væri íþróttastarf á fullu, fólk gæti mætt á íþróttaviðburði, fólk gæti mætt í leikhúsin, fólk gæti mætti á ballett, söngleiki og útihátíðir.

Menn héldu að þetta væri ekki hægt. Jú, þetta var hægt. Þetta tókst á Nýja-Sjálandi en samt komst veiran þar inn vegna þess að fólk var að ferðast á milli landa. Þegar við erum komin á þennan viðkvæma stað eigum við að sjá til þess að það sé bara gjörsamlega í neyðartilfellum sem fólk fari á milli landa. Það setti líka að mér óhug þegar ég sá nýlegt dæmi um það að einstaklingur á Nýja-Sjálandi, sem fór í 14 daga sóttkví og í tvær skimanir og fékk alltaf neikvætt svar, greindist með smit tveimur til þremur dögum eftir að hann slapp úr sóttkví. Það segir okkur kannski hve skítlegt eðli þessarar veiru er að ég sá frétt áðan um að Kínverjar væru farnir að taka endaþarmsprufu, þeir hefðu komist að því að veiran lifir miklu betra lífi þar en í hálsi, hvort sem það eru stökkbreytt afbrigði eða hvað. Ef það er næsta skref þá segi ég bara: Guð hjálpi okkur. Stoppum og látum veiruna ekki sleppa í gegn.

Það er líka annað sem sýnir okkur hve vel við höfum staðið okkur þrátt fyrir allt. Við erum talin vera í sjöunda sæti þjóða hvað það varðar að hafa staðið vel að málum og sloppið við veiruna. En við erum eyland og við hefðum alveg leikandi getað verið í fyrsta sæti. Þetta er því miður dauðans alvara og nauðsynlegt að taka líka álagið á sjúkrahússtarfsemina inn í dæmið. Það er gífurlegt og við sjáum hvernig þetta er erlendis þar sem veiran er grasserandi. Við þurfum ekki nema horfa yfir til Bandaríkjanna eða til Bretlands eða Þýskalands eða á ástandið sem því miður er komið upp í Hollandi, þar sem fólk mótmælir sóttvarnaráðstöfunum og mótmælir útgöngubanni. Ég segi fyrir mitt leyti að við heildarendurskoðun á sóttvarnalögum þá eigum við að taka á þessum hlutum. Við þurfum að vera tilbúin. Þessi veira er að kenna okkur ákveðna hluti og ég held líka að við verðum að draga þann lærdóm af því að þetta sé fyrsta tilfellið af mörgum sem mjög líklega gætu skollið á okkur. Við sjáum það bara á því hversu hratt veiran stökkbreytist, hversu mörg afbrigði eru af henni og síðan eru áhöld um það hvernig bóluefni virka.

Við endurskoðun sóttvarnalaga verðum við að taka tillit til þess að okkur ber skylda til að vernda okkar viðkvæmasta fólk. Við höfum blessunarlega getað gert það og mun betur en flestar þjóðir sem verst hafa farið út úr þessu. Sem betur fer erum við á réttri leið og ég tel þetta frumvarp vera réttu leiðina. Ég er fylgjandi því að séð verði til þess í eitt skipti fyrir öll að við hleypum veirunni ekki inn. Það er bara grundvallaratriði sem við þurfum að einbeita okkur að, hleypum veirunni ekki inn aftur. Ávinningurinn er rosalegur. Ég veit að það verður þrýstingur. Ferðaþjónustan, flugfélögin, vill hleypa ferðamönnum inn, vill slaka á. Við erum búin að ná svo góðum árangri, núna er kominn tími til að slaka á. En ég vona heitt og innilega að þessi lög verði til þess og gefi ráðherra það tækifæri að hleypa veirunni ekki inn. Öll heilbrigð skynsemi segir okkur að við eigum ekki að slaka á á landamærunum, við eigum ekki að hleypa þessari veiru inn aftur. Og við getum það, við getum komið í veg fyrir að hún sleppi hingað inn. Og ávinningurinn verður svo mikill að það er algerlega þess virði.

Ég nefni sem dæmi sóttvarnahús. Eins og staðan er í dag þá er í sjálfu sér auðvelt að sjá til þess að veiran fari varla út fyrir flugvöllinn ef einstaklingar koma smitaðir til landsins. Það er hótel við flugvöllinn. Það er hægt að nýta aðstöðu við flugvöllinn, það er hægt að búa til sóttvarnahús, það er hægt að vera með einangrunaraðstöðu. Við eigum að nýta það. Við eigum að passa það á allan hátt og sjá til þess, þó að það sé undir eftirliti, að ekki verði hægt að koma inn í landið án þess að fara í sóttkví. Ég hitti einstaklinga sem vita það frá fyrstu hendi að einstaklingar fóru út um jólin, fóru í jólafrí, og komu heim til að vinna; þeir mættu á flugvöllinn og ætluðu í hálfsmánaðarsóttkví en voru mættir í vinnu daginn eftir. Í einu tilfelli voru menn jafnvel reknir heim. Það segir okkur að það sem við vorum að gera virkar ekki. Það sem við erum að gera núna, og getum gert, eftir að við verðum búin að samþykkja þessi lög, mun vonandi virka. Við á þingi eigum að stuðla að því með öllum ráðum að veiran komi ekki hingað.

Ég lýsi því yfir fullum stuðningi við frumvarpið og þakka fyrir gott samstarf í nefndinni. Ég er ánægður með að við skulum hafa afgreitt málið úr nefnd og að málið sé komið hingað til umræðu. Ég vona að frumvarpið verði að lögum sem fyrst og við getum bara keyrt það í gegn og klárað málið þannig að hægt sé að fara að vinna samkvæmt þessum lögum. Ég vona að sú vinna skili sér þannig að við getum verið hér í sumar í veirufríu landi og þurfum ekki að vera með allar þessar takmarkanir.

Það er líka eitt sem hefur gleymst í þessu máli. Stór hópur fólks hefur ekki getað stundað líkamsrækt eða sund, fólk sem þarf nauðsynlega á því að halda. Ég nefni líka sjúkraþjálfun. Fólk hefur veikst alvarlega af veirunni og aukaverkanir hafa valdið því að stór hópur fólks sem hefur fengið sýkinguna þarf á sjúkraþjálfun að halda. Það er sorglegt til þess að vita að nýjustu fréttir af sjúkraþjálfun eru þær að gjald sem var 500 kr. fyrir hvern tíma í sjúkraþjálfun, sem var aukagjald vegna þess að ekki var samið við sjúkraþjálfara, er nú komið upp í 1.000 kr., 1.000 kr. aukagjald fyrir hvern tíma í sjúkraþjálfun. Fyrir sumt fólk sem er atvinnulaust, hefur misst vinnuna, eða fyrir öryrkja og eldri borgara eru 1.000 kr. aukalega fyrir hvern tíma í sjúkraþjálfun gífurlega mikill peningur. Ef þú þarft tvo til þrjá tíma í viku sjáum við hve stór upphæð þetta er yfir mánuðinn. Það er ekki gott að geta ekki samið um þetta í miðjum faraldri. Ein nótt á sjúkrahúsi kostar 100.000 kr., ekki undir því, en kostnaðurinn af sjúkraþjálfun í eitt ár er ekki nema helmingurinn af því. Það hlýtur að vera eðlilegt að ríkisstjórnin horfi til þess að hætta að kasta krónunni og spara aurinn og sjái til þess að þeir sem þurfa á sjúkraþjálfun að halda séu ekki flæmdir burt.

Ég veit um einstaklinga sem segja að þar sem þeir hafi verið þrjá tíma í sjúkraþjálfun í síðustu viku geti þeir ekki verið nema einn tíma í þessari viku. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir þetta fólk í miðju Covid, þegar búið er að þjarma að fólki þannig að það kemst ekki í líkamsrækt, getur ekki stundað heilsurækt? Það er búið að þrengja svoleiðis að því að sumir hafa jafnvel verið lokaðir, t.d. ákveðinn hluti fatlaðs fólks, inni í heilt ár, bara lokaðir inni. Við verðum að sjá til þess að við séum ekki að óþörfu að valda fólki þjáningum og þess vegna ber okkur skylda til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að láta hlutina virka. Ég vona heitt og innilega, þegar þetta verður orðið að lögum, að tekið verði til hendinni og séð til þess að allir þeir sem þurfa aðstoð út af Covid, óþægindum sem hafa fylgt því, fái hjálp og án þess að þurfa að fara á hausinn við að borga sjúkraþjálfun eða aðra læknisþjónustu sem fólk þarf á að halda. Ef veiran hverfur þá getum við líka opnað líkamsræktina. Við getum opnað fyrir sund, við getum opnað fyrir tónleika. Við getum opnað þjóðfélagið upp á gátt og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að viðkvæmasti hópurinn okkar smitist heldur getum við líka tekið á móti bóluefninu og klárað að bólusetja viðkvæmasta hópinn. Þá erum við í góðum málum.