151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki ekki lög eða stjórnarskrár margra annarra landa en Íslands, hef pata af þeim og veit kannski eitthvað um þær, en það er alveg ljóst, eins og ég skil íslensku stjórnarskrána, að við getum ekki bannað íslenskum ríkisborgurum að koma hingað inn. Ég held að það sé algerlega útilokað. Við getum haft einhvers konar takmarkanir á því með hvaða hætti þeir fái að koma inn í landið, t.d. með sóttkví, eins og við höfum raunar haft í lögum. Við gætum látið þá undirgangast læknisskoðun. En hvorki sóttkví né læknisskoðun gagnvart íslenskum borgurum eða íbúum Íslands getur orðið andlag þess að við vísum þeim úr landi á landamærunum. Það er aldrei hægt. Ég vona þingmaðurinn sé ekki að kalla eftir því.

Varðandi það hvað eru nauðsynlegar og ónauðsynlegar ferðir þá hefur það nánast gerst sjálfkrafa í þessum faraldri að ónauðsynlegar ferðir hafa eiginlega gufað upp vegna þess að framboð á ferðum hefur minnkað svo mikið. En ég held að það væri mjög erfitt fyrir yfirvöld að ætla að leggja mat á það hvað væri nauðsynleg ferð og hvað væri ónauðsynleg ferð. Ég held að við ættum frekar að horfa til þess að efla eftirlit með þeim sem eru í sóttkví, þó að teknu tilliti til meðalhófs, vegna þess að það má heldur ekki vera þannig að yfirvöld eða lögreglan eða einhverjir séu andandi ofan í hálsmálið á borgurunum að nauðsynjalausu. Það þarf ekki að vera þannig. Ég held að það væri farsælli leið heldur en sú að reyna með einhverju móti að meina fólki að koma inn í landið og ég vona að þingmaðurinn sé mér sammála í því.