151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:38]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég stend að nefndaráliti hv. velferðarnefndar í því máli sem hér er til umræðu, sem er um breytingar á sóttvarnalögum. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að starfa með nefndinni, sem ég geri ekki alla jafna, við umfjöllun þessa máls og vil þakka nefndarmönnum fyrir ánægjuleg samskipti. Ég vil byrja á því að segja að ég er ánægð með að frumvarpið hefur tekið jákvæðum breytingum í meðförum nefndarinnar og stend svo sem með þessu nefndaráliti þó að ég skrifi undir það með fyrirvara eins og kom fram í máli hv. framsögumanns álitsins.

Fyrirvari minn við nefndarálitið lýtur að ýmsum þáttum. Ég tek auðvitað undir þau sjónarmið sem hafa heyrst nýlega hér á þingi, og er þá kannski að endurtaka mig frá því í upphafi þessa faraldurs sem hefur bráðum varað í heilt ár. En ég hef nánast frá upphafi talað fyrir því og kallað eftir því að sóttvarnaaðgerðir fái umfjöllun í þingsal af hálfu þingsins í formi þingmála, ekki bara í formi skýrslugjafar ráðherra eða fyrirspurnatíma, heldur í formi þingmála. Ég hef bent á að það sé mjög brýnt að fyrir aðgerðum, sem sumar hverjar ganga svo mjög á réttindi borgaranna í margvíslegu tilliti, stjórnarskrárvarin réttindi, sé skýr lagaheimild. Menn hafa gripið til ýmissa sóttvarnaaðgerða í þessum faraldri með vísan til núgildandi sóttvarnalaga en komist að því, þegar á hefur liðið, að þær heimildir sem núgildandi sóttvarnalög veita sóttvarnayfirvöldum eru kannski ekki alveg nógu skýrar og í þeim tilvikum þar sem þær eru skýrar eru þær mögulega ekki nægilegar fyrir þeim sóttvarnaaðgerðum sem gripið hefur verið til.

Þess vegna hef ég talið brýnt, og er því með á þessu nefndaráliti, að renna stoðum undir þær sóttvarnaaðgerðir sem menn telja að sé nauðsynlegt að viðhafa. Menn hafa nefnt í umræðunni um þessi mál að verið sé að renna stoðum undir þær sóttvarnaaðgerðir sem nú eru í gildi. Það má svo sem til sanns vegar færa svo langt sem það nær. Ég vil árétta, þannig að enginn velkist í vafa um það, að stoðum er ekki rennt eftir á undir aðgerðir sem menn hafa metið að hafi ekki áður haft lagastoð. Það er ekki gert afturvirkt. Allt að einu er mjög mikilvægt að lagaheimildir til sóttvarnaaðgerða séu fyrir hendi af því að nauðsynlegt hefur verið að grípa til ýmissa sóttvarnaaðgerða og þá er sjálfsagt að Alþingi láti sig það varða.

Í skýrslu sem forsætisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið fengu í hendurnar að þeirra frumkvæði um lagaheimildir sóttvarnayfirvalda og ráðherra, skýrsla frá því í haust, rituð af Páli Hreinssyni, núverandi dómara við EFTA-dómstólinn, kemur fram það álit hans að brýnt sé að endurskoða öll sóttvarnalögin en hins vegar kemur líka fram hjá honum að það sé jafnvel enn brýnna að veita þeim sóttvarnaaðgerðum sem þá voru í gildi lagastoð með skýrari hætti en var fyrir hendi. Hérna er sem sagt farin sú leið að bregðast við sóttvarnaaðgerðum og kórónuveirufaraldri með breytingum á sóttvarnalögum en látið bíða að gera heildarendurskoðun á lögunum.

Ég viðraði þá skoðun mína í nefndinni að ég hefði talið fara betur á því að setja sérlög um sóttvarnaaðgerðir vegna þessa tiltekna faraldurs, sérlög um aðgerðir vegna hans, eins og við höfum svo sem verið að gera á ýmsum sviðum í efnahagsmálunum. Þar hafa verið sett sérlög um tilteknar aðgerðir, það hefur ekki verið farin sú leið að breyta lögum um kröfuréttindi eða þess háttar heldur hafa verið sett ýmis sérlög og þingið hefur brugðist mjög hratt og örugglega við áformum stjórnvalda í þeim efnum. Hér í gegn hefur runnið fjöldinn allur af lögum sem eru sérstaklega tileinkuð aðgerðum á efnahagssviðinu. Ég hefði talið fara betur á því að inn í þingið kæmu sérlög um sóttvarnaaðgerðir í stað þess að bútasauma núgildandi sóttvarnalög með þessum hætti. Í nefndaráliti kemur fram að nefndin hvetur til þess að vinna við heildarendurskoðun hefjist nú þegar eða undirbúningur að henni og ég tek undir það.

En ég hefði talið æskilegra að fá sérlög um þetta. Það hefði verið betra í margvíslegum tilgangi að hafa sérlög um sóttvarnaaðgerðir, sérlög sem taka bara til þessa faraldurs og myndu síðan renna sitt skeið á enda þegar við erum komin undan þessari hættu. Það hefði verið betra fyrir borgarana, tel ég. Það hefði verið gagnsærri löggjöf og skýrari, það hefði verið betra fyrir borgarana að átta sig á til hvaða sóttvarnaaðgerða gripið er til. Það hefði líka verið, held ég, mun betra fyrir sóttvarnayfirvöld að hafa slíka löggjöf sem gæfi miklu meiri sveigjanleika og færi á því að grípa skjótt til breytinga á þeim lögum eftir því sem þau teldu nauðsynlegt.

Það er enginn vafi í mínum huga um að Alþingi er vel í stakk búið til að bregðast hratt við lagabreytingum í þeim efnum eins og ég vísaði til áðan, við höfum dæmi úr efnahagslífinu. Það hefði verið betra fyrir sóttvarnayfirvöld að fá sérstök lög um þetta og það hefði líka verið betra fyrir Alþingi sjálft, löggjafann, að hafa þannig yfirsýn yfir allar þær sóttvarnaaðgerðir sem heimilar eru samkvæmt lögum og auðveldara fyrir Alþingi að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra og, eins og ég segi, að grípa þá til aðgerða með ýmsum hætti með því að hafa þau afmörkuð með skýrari hætti. Þetta er m.a. einn fyrirvarinn sem ég set við þetta mál. Ég held að við heildarendurskoðun á sóttvarnalögum eigi að gera ráð fyrir því að þegar svona ástand kemur upp, sem vonandi verður ekki aftur næstu áratugina, sé sérstaklega gert ráð fyrir því í almennum sóttvarnalögum að sett séu sérstök lög um viðbrögð við slíkum faraldri.

Ég tek sem dæmi um þetta vinnulag á Landspítalanum, þar sem ávallt er í gildi farsóttaráætlun, aðgerðaáætlun um það hvernig eigi að bregðast við þegar farsóttir koma upp. En þess utan hefur verið sett sérstök aðgerðaáætlun eða vinnuáætlun um vinnubrögð og ferla í tengslum við þennan tiltekna faraldur. Það má ekki gleyma því að sóttvarnalögum er ætlað að gilda um alls konar farsóttir, alls konar smitsjúkdóma, en ekki bara þessa tilteknu kórónuveiru. Ég held að það sé bagalegt og ég held að þingið þurfi að hafa auga á því á næstu misserum. Það má ekki verða þannig að menn fari að nota vinnulag úr þessum faraldri sjálfkrafa ef upp koma aðrir smitsjúkdómar sem kalla á annars konar vinnubrögð, bara af því að heimildin til þess er komin í lögin. Það er hætta á þessu og mikilvægt að löggjafinn fylgist vel með því.

Þá vil ég nefna það að jafnvel þótt farsóttir ríði yfir og hvers kyns óáran sem við getum alltaf búist við, fjármálahrun og þess háttar, þá þarf réttarríkið að standa upprétt þótt á móti blási. Í því felst að réttindi séu alls ekki skert nema með lögum. Þá er ekki nóg að hafa almenn lög um það, það þarf að tryggja að meðalhófs sé gætt og ekki er nóg að tiltaka það í lögum. Það þarf ekki einu sinni að tiltaka í lögum að meðalhófs skuli gæta við töku ákvarðana, það er ákveðin meginregla sem gildir í réttarríkinu Íslandi og víðast hvar að gæta beri meðalhófs við alla ákvarðanatöku. Það þarf líka að huga að því að jafnvel þótt menn telji einhverja lausn borðleggjandi í baráttu við svona óáran þá eru mönnum og löggjafanum takmörk sett við að veita heimildir til ýmissa aðgerða. Sumt sem hefur t.d. verið kynnt sem sóttvarnaaðgerð í tengslum við kórónuveirufaraldurinn er hreinlega ekki framkvæmanlegt í ljósi stjórnarskrárvarinna réttinda. Ég nefni sem dæmi aðgerðir á landamærum sem myndu ekki heimila íslenskum ríkisborgurum að koma inn til landsins nema að undirgangast tilteknar rannsóknir eða einhverjar aðgerðir. Slíkt stæðist ekki og fengi aldrei staðist stjórnarskrá, sama hversu göfugt markmiðið væri og velvilji Alþingis, löggjafans, til sóttvarnaaðgerða. Þetta gengi ekki upp. Þetta þarf að hafa í huga. Í því ljósi þurfa sóttvarnalög, ég tala nú ekki um sérstök lög um aðgerðir í tengslum við tiltekinn faraldur eins og ég hef rætt að hefði verið skýrara, slík löggjöf þarf að kveða á um mjög skýr viðmið, þ.e. hvenær sé um að ræða farsótt sem geti heimilað aðgerðir. Það eru ekki allar farsóttir sem geta gefið tilefni til harkalegra sóttvarnaaðgerða. Það þarf líka að tilgreina nákvæmlega umfang þeirra aðgerða sem heimilar eru. Það þarf að tilgreina umfangið sjálft. Það þarf líka að hafa takmörk á þessum aðgerðum. Þetta nefni ég og vil halda til haga.

Þar með má ekki túlka orð mín þannig að ég hafi horn í síðu sóttvarnaaðgerða, alls ekki. Ég hef frá upphafi þessa faraldurs tekið undir áminningar og brýningu um hvers kyns sóttvarnaaðgerðir, sérstaklega persónubundnar sóttvarnir sem ég tek undir með sóttvarnalækni að skipta meginmáli, eins og farið var vel yfir í upphafi faraldursins. Menn hugi að sér og meti, hver og einn sjálfur, hverjir séu viðkvæmir og þeir sem eru í viðkvæmri stöðu gæti að sér og við hin gætum að þeim sem eru í viðkvæmri stöðu. En ég nefni þetta hins vegar vegna þess að það má ekki gerast að menn hviki frá meginreglum réttarríkisins þótt á móti blási. Ég vil líka nefna í þessu sambandi að mannréttindi eru ekki bara spurningin um að veita pósitíft frelsi til athafna heldur þurfa stofnanir ríkisins í réttarríki að hafa það innbyggt hjá sér eða vera þannig uppbyggðar að erfitt sé að ganga á mannréttindi. Það dugi ekki einhvers konar geðshræring eða hræðsluáróður eða tímapressa til að menn víki frá þessum grundvallarsjónarmiðum.

Nú kynni einhver að spyrja hvort ég teldi að þetta lagafrumvarp væri komið í ásættanlegt form og svar mitt við því er nei, ég tel það ekki. Ég held að það hefði mátt breyta því meira og gera ýmis ákvæði skýrari, t.d. kveða nánar á um umfang þeirra aðgerða sem sóttvarnayfirvöld geta gripið til. Þótt ég fagni mjög umfjöllun í nefndaráliti um allt meðalhóf og að aðgerðir eigi ekki að standa lengur en nauðsyn ber til og þar fram eftir götunum þá er það að mínu mati kannski ekki nægilega vönduð lagagerð þegar kemur að grundvallarréttindum sem menn hafa í hyggju að víkja til hliðar, ef ekki er beinlínis í lagatextanum sjálfum kveðið nákvæmlega á um umfang aðgerðanna, tímamörk aðgerðanna og hvaða takmörkunum þær þurfa að sæta. Ég hefði viljað sjá meiri breytingar á frumvarpinu.

En það eru vissulega mjög jákvæðar breytingar í veigamiklum atriðum. Ég nefni sem dæmi að nefndin er sammála um að fella út heimild sóttvarnalæknis til að kveða á um skyldu til bólusetningar á landamærum. Ég er reyndar alveg gáttuð á því að ráðuneyti skuli leggja það til í frumvarpi, tala nú ekki um í ljósi þess að skortur er á bóluefni. En það liggur fyrir að eftir sem áður er enn þá í núgildandi sóttvarnalögum heimild sóttvarnalæknis til að kveða á um skyldu til bólusetningar almennt í öðrum faröldrum vegna annarra þátta. En það var ánægjulegt að heyra a.m.k. núverandi sóttvarnalækni tjá sig um að honum hefði aldrei komið til hugar að kveða á um skyldu til bólusetningar á Íslandi, enda hefur hann réttilega bent á að Íslendingar, okkar ágæta þjóð, vel upplýst, einsleit og svona að mestu kreddulaus, hafi tekið bólusetningum fagnandi eins og öðrum framförum í læknavísindunum. Það hefur því ekki verið nein þörf á að grípa til svo harkalegra aðgerða eins og þeirra að skylda þjóðina til bólusetninga. En þetta kann auðvitað að breytast, sjónarmið sóttvarnayfirvalda á hverjum tíma, þannig að ég tel tvímælalaust að við heildarendurskoðun laganna þurfi að skoða þetta sérstaklega. En þetta ákvæði var sem sagt fellt út úr frumvarpinu.

Önnur jákvæð breyting er að felld var brott heimild til handa sóttvarnalækni að kveða á um útgöngubann. Fullkomlega tilefnislaus heimild, að mínu mati, hér á landi. Svo var líka ánægjulegt að nefndin var sammála um að hrófla ekki við núverandi stöðu sóttvarnaráðs sem starfar samkvæmt gildandi lögum undir heilbrigðisráðherra og á að vera honum til ráðgjafar um stefnumörkun í sóttvarnamálum. Það var einhver furðuleg breyting lögð til á stöðu sóttvarnaráðs. Ég tek hins vegar undir með gestum sem komu og kölluðu eftir því að hlutverk sóttvarnaráðs yrði greint og skilgreint betur. Ég held að það eigi frekar heima í heildarendurskoðun á lögunum.

Þetta er svona í grófum dráttum það sem ég vildi segja um frumvarpið að þessu sinni. Sóttvarnalög allra Norðurlandanna hafa tekið breytingum núna á undanförnum misserum. Danir fóru strax í það að breyta sínum sóttvarnalögum við upphaf faraldursins og gerðu það aftur síðasta haust og fyrir danska þinginu stendur yfir umræða um breytingar á dönsku sóttvarnalögunum. Í Svíþjóð gekk í gildi veigamikil breyting á sóttvarnalögum þar í landi þar sem þingið ákvað að taka með beinum hætti til sín a.m.k. eftirlit í þessum efnum og allar sóttvarnaráðstafanir sem sóttvarnayfirvöld hafa heimild til verða bornar undir þingið innan einnar viku í Svíþjóð. Fleiri breytingar hafa verið gerðar í Noregi og Finnlandi. Ég tel að þingið þurfi að skoða þetta og ég beini því til hv. velferðarnefndar að halda áfram að skoða þetta og þær breytingar sem hafa verið gerðar á Norðurlöndunum vegna þess að þær hafa vakið upp miklar umræður um valdmörkin á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins við þessar aðstæður. Þar er ekki nein fullkomin samstaða í þeim efnum, (Forseti hringir.) hvorki meðal fræðimanna í lögfræði né kjörinna fulltrúa.