151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir prýðisgóða ræðu. Það eru nokkur atriði úr ræðu hv. þingmanns sem mig langar að koma inn á. Þingmaðurinn nefndi það í ræðu sinni að hún væri alla jafna ekki í velferðarnefnd en hefði tekið þátt í störfum nefndarinnar núna í tengslum við vinnslu þessa máls og ég held að það sé til mikilla bóta fyrir málið allt.

Þingmaðurinn kom inn á sjónarmið sem tengdust sérlögum og mig langar að óska eftir því að hún færi kannski örlítið meira á dýptina hvað það varðar. Var eitthvað á fyrri stigum sem hindraði að sú nálgun yrði viðhöfð? Nú er þingmaðurinn hluti af þingflokki stærsta stjórnarflokksins þannig að ég gef mér að einhver umræða hafi verið um með hvaða hætti yrði haldið á þessu. Síðan kom þingmaðurinn ágætlega inn á það í lokin hvernig málum væri háttað í Danmörku núna. Vildi þingmaðurinn aðeins útskýra betur fyrir mér hvernig hún hefði séð þetta haganlega skert og hvort hún telji sig eiga einhverja skýringu á því hvers vegna við erum núna, á 11. mánuði, í þessum sporum en höfum ekki nálgast málið með öðrum hætti á fyrri stigum.