151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er tvennt sem mig langar að koma inn á í seinna andsvari. Það er í fyrsta lagi hvort einhver umfjöllun að ráði hafi verið í nefndinni varðandi sjónarmið Samtaka atvinnulífsins sem fjalla um það að meta efnahagsleg áhrif sóttvarnaaðgerða, sem mér hefur í rauninni þótt vanta mikið upp á í gegnum allan þann tíma sem við höfum staðið í þessum slag, farið að halla núna í heilt ár. Á hvaða nótum var sá þáttur ræddur?

Síðan er atriði sem hv. þingmaður kom aðeins inn á í ræðu sinni og snýr að samkomubanni og heimildum til slíkra ákvarðana. Telur hv. þingmaður að fyrirkomulagið eða sú nálgun sem lagt er upp með þar sé ásættanleg? Það var ágætisviðtal í Kastljósi, held ég að hafi verið, við fyrrverandi formann Lögmannafélagsins, Reimar Pétursson, sem lýsti því að hann upplifði sig ekki á neinni sérstakri samkomu þegar hann færi til rakarans.

Mér þætti áhugavert að heyra með hvaða hætti þessir tveir þættir voru ræddir innan nefndarinnar, annars vegar þetta mat á efnahagslegum áhrifum, sem mér finnst hafa verið allt of lítið gert með hingað til í núverandi ástandi, og hins vegar atriðið sem snýr að skilgreiningu þess sem getur fallið undir hugtakið samgöngubann.