151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kemur inn á mjög mikilvægt atriði sem vert er að taka sérstaka umræðu um en það eru einmitt tengsl sóttvarnaaðgerða við fleira en þann tiltekna smitsjúkdóm sem í gangi er, m.a. í tengslum við lýðheilsu almennt og efnahagslífið, eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég minnist ekki umræðu í nefndinni sérstaklega um efnahagslegt mat á sóttvarnaaðgerðunum. Það liggur auðvitað fyrir minnisblað frá fjármálaráðherra frá því í haust um efnahagslegt mat sóttvarnaaðgerða þar sem komist er að þeirri niðurstöðu — og síðan var reyndar lagt til að loka í raun landinu í haust því að þá gætu menn átt sér eðlilegt líf hér innan lands og efnahagurinn yrði allur í blóma. Það hefur náttúrlega komið í ljós að auðvitað hefur ekki verið neitt eðlilegt líf innan lands þrátt fyrir þessar lokanir og full ástæða er til að endurnýja aðeins þetta minnisblað. Ég mun leggja mitt af mörkum til að hvetja til þess að sóttvarnaaðgerðir verði áfram metnar í efnahagslegu tilliti en umræða um það þarf að sjálfsögðu að fara fram á þinginu líka.

Hvað stöðvun atvinnurekstrar áhrærir er það rétt sem hv. þingmaður bendir á að það hefur verið gert hingað til með vísan til samkomubanns og er á mjög gráu svæði, svo að ég taki ekki dýpra í árinni í þeim efnum. Með frumvarpinu, eins og það er úr garði gert núna, er gert ráð fyrir því að sérstaklega sé kveðið á um heimild til að stöðva atvinnurekstur ef tiltekin tilvik koma upp á sem eru ágætlega skilgreind, m.a. ef atvinnustarfsemin er þannig að mikill fjöldi kemur saman, mikil hætta er á smiti, mikil nánd og annað. Þar fannst mér hins vegar vanta upp á að takmarka samt heimildirnar og að líta þurfi til þess hvaða aðrar leiðir séu líka færar, m.a. smitrakningin. Þannig leiði það ekki til lokunar hjá t.d. atvinnustarfsemi þar sem mikil nánd er, eins og á rakarastofum, en (Forseti hringir.) auðvelt að rekja smit. Þar geta aðrar (Forseti hringir.) mótvægisaðgerðir vegið upp á móti.