151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um. Þar sem þingmaðurinn, verandi formaður hv. velferðarnefndar, stýrði þessum fundarhöldum vegna málsins, sem voru greinilega umtalsverð miðað við nefndarálitið, vil ég fyrst koma inn á atriði sem kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um þörf fyrir mat á efnahagslegum áhrifum sóttvarnaaðgerða. Hv. þingmaður hefur m.a. tekið töluverðan þátt í umræðu um stuðning við kostnaðargreiðslur íþróttafélaga, svo dæmi sé tekið, hér á fyrri stigum og um ýmis sérlög sem hafa verið samþykkt í þinginu vegna Covid-ástandsins. Varðandi þetta heildstæða mat — vissulega liggur fyrir minnisblað fjármálaráðherra frá því fyrir þó nokkru síðan um stöðuna — var það ákvörðun að fara kannski ekki djúpt í það eða sér hv. þingmaður fyrir sér að það verði tekið fyrir í nefndinni síðar eða í einhverju öðru máli? Mér finnst eiginlega ótækt að við skiljum við þessi lög með þeim hætti að mat á efnahagslegum áhrifum sóttvarnaaðgerða sé einhvern veginn „afstands“, ef svo má segja? Ef hv. þingmaður vildi í fyrra svari fara yfir hvort það hafi aldrei komið til að þetta yrði rætt af einhverri dýpt og væri hluti af málinu.