151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Hér erum við að setja lagastoð undir ýmiss konar sóttvarnaaðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til. Við erum að rétta við ákveðinn halla, að mínu mati, skort á lagastoð fyrir aðgerðum sem nú þegar hefur verið gripið til. Mat á efnahagslegum áhrifum þeirra aðgerða gerist bara samhliða. Það er nú þegar verið að framkvæma það mat. Við látum ekki lagasetninguna bíða eftir slíku mati enda fer það fram í öðru ráðuneyti, fer stöðugt fram og samkvæmt því sem við fáum upplýsingar um er það nú þegar í gangi. Eins og hv. þingmaður kom svo sem inn á þá hefur mat verið framkvæmt nú þegar og er áfram í gangi. En ég taldi ekki tækt að fresta meðferð þessa máls til að kanna efnahagsleg áhrif aðgerða sem eru nú þegar í gangi. Ég tel miklu mikilvægara að það sé lagastoð undir þeim aðgerðum.