151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég er algerlega sammála og hef svo sem haldið því fram hér í pontu að þessi grundvöllur aðgerðanna hefði átt að vera lagaður miklu fyrr. Við erum komin á, að ég held, 11. mánuð síðan þetta ástand bankar upp á hjá okkur. Það er engu að síður þannig að mér þykir þessi efnahagslegu og félagslegu afleiddu áhrif sóttvarnaaðgerða verða að koma framar inn í allt þetta mat.

Þessu til viðbótar langar mig til að spyrja hv. þingmann um tvö atriði sem voru felld út. Þingmaðurinn kom aðeins inn á þau í ræðu sinni en það eru tvö atriði sem voru í frumvarpinu frá ráðherra sem eru felld út, annars vegar skyldubólusetningin og hins vegar útgöngubannið. Var sátt um þetta í nefndinni? Hvaða sjónarmið voru það helst sem hefðu gengið í þá áttina, hvað þessa tvo þætti varðar, að þingið kláraði málið eins og ráðherra lagði til í upphafi?