151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:35]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér breytingu á sóttvarnalögum. Tilefni og nauðsyn lagasetningar þeirrar sem við ræðum er að skýra gildandi sóttvarnalög með hliðsjón af reynslu heimsfaraldurs kórónuveiru og koma í veg fyrir réttaróvissu um sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda. Í álitsgerð dr. Páls Hreinssonar, sem frumvarpsdrögin byggðust á, er fjallað um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Jafnframt er þar tekið mið af samspili við valdheimildir lögreglu og annarra yfirvalda til að framfylgja slíkum ráðstöfunum.

Þetta frumvarp hefur nú verið afgreitt úr velferðarnefnd. Nefndin leggur til að ákvæði sem heimila að leggja á útgöngubann og ákvæði um skyldubólusetningu á landamærum falli bæði út. Þetta er að mati þeirrar sem hér stendur gríðarlega mikilvæg breyting og ég fagna því að ákvæðin séu felld brott. Í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram hér rétt áður en ég steig upp í ræðustól, þar sem í andsvörum var spurt hvort þessi atriði hefðu ekki fengið nægilega meðferð innan nefndarinnar og nægilega umræðu, þá lít ég svo á að í raun hafi nefndin tekið umræðu og að hún hafi verið einmitt um það að þessi ákvæði voru umdeild og tilheyrðu ekki beint tillögum Páls Hreinssonar um breytingar og þær lagastoðir sem nauðsynlegt væri að koma undir strax. Þannig að fyrir mitt leyti er ég alveg sátt við það hvernig fór með þessi ákvæði í meðförum nefndarinnar og tel að e.t.v. hafi þetta orðið niðurstaðan af því að einmitt var um umdeild ákvæði að ræða.

Forseti. Það var löngu fyrirséð að gera þyrfti þessar breytingar og mér hefði þótt betri bragur á að málið hefði fengið að koma fram fyrr og þá strax án þessara umdeildu atriða, annars vegar hugmynda um skyldubólusetningu á landamærunum, og höfum það í huga, virðulegi forseti, að það getur líka átt við um íslenska ríkisborgara á leið heim til sín, og hins vegar um útgöngubann. Málið kom seint og var ekki gert að forgangsmáli ríkisstjórnarflokkanna til afgreiðslu fyrir jólaleyfi. Það var þá löngu ljóst að það skorti lagastoð undir þær aðgerðir sem yfirvöld hafa talið nauðsynlegt að grípa til vegna yfirstandandi heimsfaraldurs.

Stundum er sagt að viti maður ekki hvert maður stefni endi maður örugglega einhvers staðar annars staðar. Ég hef í meðförum þingsins og innan nefndarinnar komið þessari gagnrýni minni á framfæri um töf og skort á skýrri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hvað varðar þetta mikilvæga mál og hef tjáð mig um ákveðið stefnuleysi í þeim efnum. En eins og áður hefur komið fram stóð málinu að mínu mati fyrir þrifum að þessi umdeildu ákvæði voru sett inn í lokin vegna þess að frumvarpsdrögin áttu að byggjast á álitsgerð Páls Hreinssonar þar sem mjög skýrt var tekið fram hvað þyrfti að gera strax til þess að skjóta þessum lagastoðum undir. Og eins og fram hefur komið í umræðum hér í dag bíður heildarendurskoðun laganna þess tíma að núverandi heimsfaraldur sé yfirstaðinn.

Í byrjun þessa mánaðar kom upp ástand við landamærin sem kallaði á skjótt inngrip stjórnvalda. Örfáir einstaklingar sem völdu 14 daga sóttkví stað skimunar fóru ekki í sóttkví og sköpuðu þar hættu fyrir almannaheill, sér í lagi vegna þess að ástandið var eldfimt erlendis, nýtt og bráðsmitandi afbrigði veirunnar var farið að leika nágrannalönd okkar mjög grátt, og sóttvarnalæknir mæltist til þess að tvískimun yrðu gerð að skyldu þá strax. Auðvitað jókst hitinn þá undir nefndinni gagnvart því að klára málið og meiri hlutinn pressaði á að málið væri keyrt í gegnum þingið með hraði. Ég hef komið á framfæri gagnrýni minni á þau vinnubrögð og ég leyfi mér að hnykkja aðeins á þeirri gagnrýni hér aftur.

Hvað varðar þessi umdeildu atriði, ákvæði í lögunum um skyldubólusetningu og útgöngubann, hef ég gert góða grein fyrir afstöðu minni og fagna því að í nefndinni náðist málefnaleg niðurstaða um meðferð ákvæðanna sem samstaða er um. Ég tek enn og aftur fram að ég er fylgjandi bólusetningum við Covid og hvet sem flesta til að þiggja bóluefni. Gagnrýni mín hefur snúið að þeirri hugmynd að skylda einstaklinga í bólusetningu, að ríkisvaldið geti skyldað fólk til þess að þiggja lyfjagjöf, heilbrigt fólk sem með valdi væri hægt að þvinga til lyfjainntöku eða læknismeðferðar. Þetta kemur, svo ekki sé meira sagt, mjög nærri stjórnarskrárvörðum réttindum hvers einstaklings og höfum það í huga að stjórnarskrárvarin mannréttindi tilheyra einstaklingnum. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga við alla lagasetningu sem snýr að ákveðinni regnhlífarnálgun á samfélaginu að þessi réttindi tilheyra okkur, hverju og einu, og nauðsynlegt að fara mjög varlega þegar rætt er um lagasetningu sem fer nálægt þessum réttindum okkar. Eins hefur það komið fram í máli sóttvarnalæknis í gegnum tíðina hvað varðar bólusetningu yfir höfuð að mun heillavænlegra sé að fræða fólk en þvinga það til hlýðni. Ef markmiðið er að bólusetja sem flesta þá vinnur það gegn markmiðinu að þvinga bólusetningu, hefur sóttvarnalæknir sagt. Hitt er það að einnig eykst hætta á andspyrnu og pólaríseringu umræðunnar og það vinnur að sjálfsögðu gegn markmiðinu um að bólusetja sem flesta. Það eru alltaf heillavænlegri stjórnmál yfir höfuð að leita frekar upplýsts samþykkis borgaranna með aðgerðum hverju sinni, með fræðslu og opnu samtali, og þegar viljinn stendur til að sannfæra eins marga og hægt er um sama hlutinn í þágu almannaheilla þá er mikilvægt að það sé byggt á opnu, heiðarlegu og upplýstu samtali við þjóðina en ekki harkalegri lagasetningu. Ég held, og leyfi mér að vona, að við séum flest sammála um það, sem störfum hér á Alþingi núna.

Svipuð rök eru á móti útgöngubanni fyrir mér. Í upphaflegri útgáfu frumvarpsins sagði að heilbrigðisráðherra gæti kveðið á um útgöngubann vegna smithættu í samfélaginu. Framsögumaður frumvarpsins hefur tekið undir þau sjónarmið að slíkt væri íþyngjandi og þarfnaðist frekari umræðu, bæði á Alþingi og í samfélaginu, og verið sammála um að skynsamlegra væri að bíða og fara frekar yfir það við heildarendurskoðun laganna sem sagt er í nefndarálitinu að þurfi að fara fram. Þetta er gríðarlega íþyngjandi ákvæði og þarfnast umræðu. Það vegur að stjórnarskrárvörðum réttindum borgara landsins. Komi umræða um þetta aftur, til að mynda í heildarendurskoðun laganna, munum við Píratar, hverjir sem sitja hér á þingi og bara Píratar yfir höfuð, auðvitað taka málefnalega afstöðu til þess þá en þess hefur ekki þótt þörf í yfirstandandi faraldri og það hefur sóttvarnalæknir gefið skýrt út. Ástæðurnar fyrir því að ekki hefur verið þörf á útgöngubanni á Íslandi, ólíkt því sem við höfum séð erlendis, skrifast að mörgu leyti á það að Ísland er öðruvísi upp byggt en t.d. stórborg á meginlandinu. Lifnaðarhættir okkar eru aðrir, samverumynstur og ákveðið skipulag byggða á Íslandi er ólíkt til að mynda stórborgum.

Svo má líka benda á það, og það hefur komið fram, að margrómaður árangur í smitrakningu hefur gert það að verkum að þegar upp kemur smit þá er hægt að bregðast fljótt og örugglega við og ekki sama hætta á ferðum og margs staðar annars staðar. Þetta fer ekki bara eins og eldur í sinu um heila borg. Við erum með smitrakningu og hægt að færa sterk rök fyrir því að með smitrakningu, sem gengur svona vel og er skjótt og öruggt inngrip þegar smit fer af stað, sé verið að gæta meðalhófs frekar en með t.d. útgöngubanni. Ég kem aðeins aftur inn á útgöngubann síðar og hversu íþyngjandi slíkt úrræði væri.

Álitsgerð Páls Hreinssonar, sem frumvarpið byggist á, kom fram í september. Þar tók Páll fram þau atriði sem hann telur nauðsynlegt að ráðast í nú þegar og segir svo, með leyfi forseta:

„Eftir að á þanþol gildandi sóttvarnalaga hefur reynt í Covid-19 faraldrinum sem geisað hefur á Íslandi er eðlilegt að uppsöfnuð reynsla sé vegin og metin og gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum í hennar ljósi þannig að stjórnsýsla sóttvarna sé betur í stakk búin til að mæta næsta faraldri. Áður en í þessa heildarendurskoðun verður ráðist er rétt að bæta strax úr helstu ágöllum sem á lögunum eru, m.a. til að tryggja að sóttvarnayfirvöld hafi allar nauðsynlegar valdheimildir.“

Þetta er að mínu mati veigamesti punkturinn í allri þessari vinnu. Þetta er inngangsatriði hvað varðar samningu frumvarpsins og þetta hefði alltaf átt að vera stefnan frá upphafi til enda og gert hratt og vel. En allt er gott sem endar vel og við erum komin þetta langt með að skjóta nauðsynlegum lagastoðum undir yfirstandandi sóttvarnaráðstafanir. Páll Hreinsson segir eðlilegt að uppsöfnuð reynsla sé vegin og metin og ég vil taka undir það sjónarmið og vil hnykkja á nauðsyn þess. Það, virðulegi forseti, er svo mikilvægt. Nú hafa hliðaráhrif sóttvarnaaðgerða verið í sumum tilfellum mjög þungbær fyrir einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki, menntastofnanir og lista- og menningarlífið. Óhætt er að segja að allur vettvangur daglegs lífs eins og við þekkjum það hafi fundið fyrir íþyngjandi áhrifum sóttvarnaaðgerða sem þó hafa verið nauðsynlegar til að vernda líf og heill íslensks samfélags. Þá ber svo sannarlega að fagna þeim árangri sem hefur náðst og eins gefa fréttir dagsins til kynna að vegna þess árangurs sem við erum að uppskera verði möguleiki á að aflétta samfélagstakmörkunum fyrr en áætlað var. En ég vil leggja áherslu á hvernig það hefur tekist. Hvers vegna hefur með samtakamætti tekist að halda veirunni í skefjum? Vegna þess að það hefur verið opið og heiðarlegt samtal við samfélagið um þessa hluti. Fólki hefur verið haldið vel upplýstu. Það hefur ríkt sátt þótt erfitt sé og þungbært að þurfa að horfast í augu við afleiðingar þessara nauðsynlegu aðgerða.

Meðal mjög hvimleiðra hliðaráhrifa sóttvarnaaðgerða hefur verið að tilkynningum um til að mynda heimilisofbeldi hefur fjölgað mikið síðan faraldurinn hófst. Það kemur aftur inn á ákvæði um útgöngubann. Við sjáum að erlendis þar sem útgöngubann hefur verið sett á hafa þær tölur farið enn hærra en hér, þegar heimilisofbeldi og slíkt hefur aukist. Eins sjáum við núna heila kynslóð ungs fólks sem fer tímabundið á mis við ákveðna þætti, menntunarmöguleika, félagslega þætti, til að mynda íþróttaiðkun, sem hefur jú gríðarlegt forvarnagildi hvað varðar til að mynda vímuefnanotkun meðal ungmenna. Þetta beintengist áætlunum um heildarendurskoðun laganna og mikilvægi þess að horft sé til þeirra áhrifa sem sóttvarnaaðgerðir hafa, að uppsöfnuð reynsla sé vegin og metin, að við getum horft á þetta heildrænt með sem mestar og bestar upplýsingar til þess að geta tekið málefnalegar ákvarðanir í framtíðinni, af því að allar líkur eru á að upp komi annar faraldur fyrr eða síðar, vonandi síðar.

Hér í ræðustól hefur í dag einmitt verið kallað eftir auknu mati á efnahagslegum áhrifum hertra aðgerða. Ég tek undir það. Ég tek undir mikilvægi þess að það sé skoðað samhliða og sem flestir fengnir til borðsins þannig að við getum haft góða yfirsýn yfir hvaða áhrif hlutirnir hafa á samfélagið okkar án þess að það fari í eitthvert óefni og einhver hagsmunaöfl fari að toga í mismunandi áttir og veikja varnarmúrinn sem sóttvarnaaðgerðir eru. Eins er það staðreynd að þeim mun lengur sem hertar aðgerðir standa yfir því meiri hætta myndast á því að jafnvægið raskist á milli þess að verja líf og heill þjóðar með sóttvarnaaðgerðum annars vegar og hins vegar þess að hliðarkvillar fari að ógna, til að mynda þegar fólk veigrar sér við að leita læknishjálpar, greinist þá jafnvel síður og biðlistar lengjast. Hreyfing er líka mikilvægur þáttur fyrir heilsu og við höfum séð það að eldri borgarar hafa margir hverjir einangrast í lengri tíma á síðastliðnu ári. Svo er það staðreynd að félagslegar tengingar eru lífsnauðsynlegar manninum og hvað þá ungmennum og börnum, þannig að það er mikilvægt eftir því sem tíminn líður að við horfum á jafnvægi þessara þátta.

Virðulegi forseti. Fyrirvari minn sneri einnig að því sem kom fram í umsögn Læknafélags Íslands, sem gerði athugasemd við það að sóttvarnaráð hafi ekki verið með í ráðum við undirbúning þessara lagabreytinga. Í ljósi þess hlutverks sem sóttvarnaráði er falið í gildandi sóttvarnalögum verða það að teljast undarleg vinnubrögð. Auðvitað er það svo að ákvæðið sem var upphaflega í frumvarpi þessu hefur verið fellt brott. Það er góð breyting, enda fólst ákveðin valdþjöppun í því. En það tengist þessu sem ég er að tala um, það þarf að fá sem flesta að borðinu, m.a. aðrar læknastéttir með aðra sérfræðiþekkingu eftir því sem tíminn líður, þótt maður hafi að sjálfsögðu fulla samúð með því að hér hafi verið krísustjórnun síðastliðið ár og verið að reyna að komast áfram í ákveðnu myrkri. En nú þurfum við að fara að taka samtöl sem samfélag og þjóðfélag um þessa hluti og hvernig við viljum sjá framtíðina. Mér þykir mikilvægt að ráðgefandi hlutverk sóttvarnaráðs sé virt og að sem mest sérfræðiþekking sé við borðið þegar ákvarðanir eru teknar.

Í nefndarálitinu, sem ég set nafn mitt á með fyrirvara sem ég hef nú gert grein fyrir, er talað um rannsóknarskyldu og mat á meðalhófi. Ég vil minna á það líka að meðalhóf er eitthvað sem við þurfum alltaf að halda á lofti í umræðu. Stundum eru aðrar leiðir til að komast að sama markmiði en þær sem fyrst virðist vera rökrétt að fara. Munum það við lagasetningu að þó að þau stjórnvöld sem nú sitja njóti trausts í samfélaginu þá vitum við ekki hverjir framtíðarstjórnendur verða og það er mikilvægt að stigið sé varlega til jarðar hvað varðar alla lagasetningu sem fetar svo nálægt réttindum borgaranna. En ég fagna því að þetta sé komið svona langt og ég þakka fyrir þá vinnu sem fór fram í nefndinni. Hún skrölti aðeins af stað en allt er gott sem endar vel og ég fagna því að þetta sé í málefnalegri vinsemd og komið á þennan stað núna.