151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:02]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir seinni spurningarnar. Ég ætla að búta þetta aðeins niður. Það er náttúrlega viðfangsefni stjórnmálanna hverju sinni hvar þessi lína liggur. Við erum með þennan samfélagssáttmála sem eru stjórnarskrárvarin réttindi okkar, hvers og eins. Þetta er það sem við höfum komið okkur saman um sem vinnuplagg út frá því hvað við viljum að löggjafinn hugsi. Svo koma auðvitað upp neyðartilfelli og neyðartilvik. Við höfum séð það núna í yfirstandandi heimsfaraldri að við höfum þurft að fara út fyrir þennan samfélagssáttmála okkar. Það hefur raunverulega þurft að ganga rosalega langt á þessi réttindi sem við viljum að hver og einn njóti í samfélaginu.

Hvað varðar skyldubólusetningu þá hefur það sýnt sig erlendis — og við fengum einmitt minnisblað um hvernig þetta er í nágrannalöndunum, hvort einhvers staðar þar sé skyldubólusetning. Stutta svarið var nei, ekki hefur verið gripið til þeirra úrræða. Já, það er hætta á að andspyrna verði gegn því og að þeir sem áður hefðu þegið bólusetningu myndu snúast á móti því. Ég held að ekki þurfi mikið hugmyndaflug til að sjá hvert það geti leitt. Eins og ég segi dregur það úr markmiðinu og úr því að líf og heill, sem við viljum verja, sé verndað.

Reyndar er það sem kemur núna inn á landamærin kannski besta dæmið um slíkt. Taka þurfti málefnalega ákvörðun um að skylda í tvískimun og sóttvarnalæknir gerði það af því að örfáir einstaklingar voru að fara út fyrir það sem var æskilegt fyrir samfélag okkar. En það þarf að taka málefnalega afstöðu gagnvart því (Forseti hringir.) og ég vænti þess að það verði líka gert í heildarendurskoðun laganna, hvað varðar Covid, (Forseti hringir.) hvað varðar svona heimsfaraldra. En að mínu mati skal í lengstu lög (Forseti hringir.) forðast að skylda lyfjatöku hjá heilbrigðum einstaklingum, nokkurn tímann.