151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er góð umræða sem á sér stað hér í dag þar sem við ræðum um sóttvarnalögin. Við höfum átt ágætisvinnu í velferðarnefnd og búið er að leiða í jörð ansi mörg ágreiningsmál sem ég tel að sé góðs viti. En þegar ég les nefndarálitið yfir finnst mér stundum verið að færa vandann áfram, að þar sem við viljum kannski klára þessa lagasetningu þá sé verið að beina ákveðnum þáttum málsins inn í þann fasa að á þeim verði tekið þegar um heildarendurskoðun á lögunum verður að ræða. Mig minnir að ég hafi spurt hvenær slík endurskoðun á lögunum í heild sinni ætti að fara fram. Þá minnir mig að svarið hafi verið næsta haust. Samt var það ekki fest nánar í tíma.

Við fengum frekar góðar umsagnir og mér sýnist flestar hafa fengið pláss í nefndarálitinu, t.d. frá Landspítala um að betra hefði verið að fara í heildarendurskoðunina strax þannig að yfirstjórn væri tryggð og hlutverk sóttvarnalæknis og landlæknis betur skýrt sem og hlutverk sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Mér finnst eins og við höfum tekið á nokkrum þáttum þess atriðis sérstaklega. Þrátt fyrir það er eitthvað skilið eftir til frekari vinnslu í heildarendurskoðun.

Í umsögn Læknafélags Íslands var talað um að bagalegt væri að ekki hefði verið haft samráð við sóttvarnaráð. Þegar ráðið kom fyrir nefndina undirstrikaði það að það hefði ekki verið kallað til við vinnslu þessa máls. Það er dálítið vont. Við höldum því yfirleitt fram að betra sé að fleiri komi að heldur en færri vegna þess að þá fáist betri skoðun á hlutunum. Mér finnst ekki nógu skýrt kveðið á um stefnumótandi hlutverk sóttvarnaráðs, þannig meint að það sé án vafa til tekið hvaða stefnumótandi hlutverk það á að hafa. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn Læknafélags Íslands bendir félagið m.a. á að það hefði talið eðlilegra að viðhalda og styrkja stefnumótandi hlutverk sóttvarnaráðs. Læknafélaginu hafa borist ábendingar um að í yfirstandandi heimsfaraldri hafi lítið verið leitað til sóttvarnaráðs til ráðgjafar. Mikilvægt er að leggja áherslu á ráðgefandi hlutverk sóttvarnaráðs auk þess sem sóttvarnaráð komi að mótun stefnu í sóttvörnum.“

Þarna hefði ég viljað taka sterkar til orða en ég skil vel að verið sé að koma til móts við fleiri sjónarmið en mín eigin. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að leitast verði við að móta breytt hlutverk ráðsins í samráði við hlutaðeigandi aðila í fyrirhugaðri heildarendurskoðun þessara laga. Einhvern veginn á að breyta hlutverki sóttvarnaráðs frá því sem nú er. Ég er á því að það eigi frekar að styrkja þetta ráð vegna þess sem ég sagði hér áðan um að mér fyndist betra þegar fleiri koma að en færri. Mér finnst það líka skjóta nokkuð skökku við vegna þess að á öðrum stað finnst okkur mjög mikilvægt að tiltaka fleiri heilbrigðisstéttir yfirleitt. Við nefnum sem dæmi sjúkraliða sem eru einn af mikilvægustu hlekkjum kerfisins.

Þetta hefur verið fín umræða. Aðgerðir á landamærum hafa komið til tals og mig langar í því sambandi að minnast aðeins á að þeir sem koma hingað til lands koma flestir í gegnum Keflavíkurflugvöll. Ég veit ekki nema að við þurfum að festa það með einhverjum hætti að þar sé íverustaður þannig að fólk geti tekið sína sóttkví þar, þó ekki sé nema að hluta þannig að fólk sé ekki skyldað til að halda ferð sinni áfram örþreytt. Ég þekki aðeins til Pólverja sem starfa hér á landi og komu hingað aftur eftir jólafrí. Þeir hafa talað um að það sé nokkuð óskýrt hvernig þeim beri að haga sér. Þeir hafa jafnvel stigið upp í innanlandsflugvél til að fara í sóttkví annars staðar vegna þess að við fyrri skimun fá þeir einungis meldingu í símann sinn um að þeir séu ekki með Covid og með því halda þeir bara áfram. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum þetta í huga og reynum að breiða út þann boðskap. Þó að okkur kunni að finnast þetta skýrt eru margir sem eru ekki alveg með þetta á hreinu og panta sér innanlandsflug, haldandi að þeir séu bara algjörlega öruggir og muni ekki smita aðra þar sem þeir séu ekki með Covid. Þegar ég bendi á að mikilvægt sé að við höfum einhvern stað fyrir fólk sem kemur má líka hafa það í huga að margir eru þá þegar búnir að keyra langan veg að millilandaflugvelli í sínu heimalandi. Svo sitja þeir í flugvél, en við vitum hvað við verðum þreytt á því, og þurfa þar á eftir að keyra aftur í alls konar færð til endadvalarstaðar. En það var nú þetta. Mér fannst bara mikilvægt að koma þessu að.

Ég er á nefndarálitinu með fyrirvara af því að, eins og ég kom inn á áðan, mér finnst ekki rétt að fækka þeim aðilum sem taka ákvarðanir eins og mér sýnist allt stefna í. Ég verð að segja að mér hefði þótt betra ef við hefðum tekið skrefið fyrr og sett sérlög um kórónuveirufaraldurinn. Ég á svolítið erfitt með að sjá hvernig við eigum að afgreiða þetta núna þegar við erum eiginlega að komast út úr kófinu. Kannski hefði verið betra að byrja á því að setja lögin fyrr og bæta svo í þau eða breyta þeim eftir því sem þurfti.

Af því að við höfum aðeins rætt útgöngubann í dag langar mig aðeins að vekja upp enn einn þanka sem ég hef. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Telur nefndin að umfjöllun um jafn viðamikið inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi fólks og útgöngubann felur í sér þarfnist ítarlegri umfjöllunar sem verður betri staður fundinn við heildarendurskoðun laganna.“

Við erum enn og aftur að velta því fyrir okkur að setja inn ákvæði um útgöngubann og við erum að ræða þessi lög. Mér finnst þetta dálítið sérstakt. Ég segi líka að það er mikilvægt að við breytum lögunum þannig að við séum með skýra lagastoð fyrir þeim aðgerðum sem eiga sér stað. Ég hefði þó viljað sjá sérlög um Covid fyrr fram komin.

Aðeins hefur verið rætt um skyldubólusetningu sem ég er náttúrlega alfarið á móti enda er það ekki sett hér niður. Fólk getur haft ýmsar ástæður, undirliggjandi sjúkdóma og fleira. Það er líka mikilvægt að koma því að að við höfum staðið okkur ótrúlega vel í sóttvörnum. Síðast í dag sáum við að sóttvarnalæknir velti upp þeim hugmyndum að hægt væri að slaka á boðum og bönnum, jafnvel fyrir 17. febrúar. Ég held að margir muni fagna ef það verður hægt. Ég vona að það gangi eftir en þó ekki þannig að fólk fari að slaka það mikið á að við þurfum að herða á tveimur dögum seinna.

Ég tek líka undir orð hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur sem minntist á og gerði vel grein fyrir afleiðingum takmarkana sem eru aukning í ofbeldi á heimilum. Hún ræddi félagslegan þroska barna og ungmenna og efnahagsmál. Mig langar aðeins að bæta í það og tala um geðheilbrigði. Við vitum að áföll koma síðar fram á andlega sviðinu en því líkamlega. Það sem meira er, fólk er lengur að vinna úr þeim andlegum áföllum sem það verður fyrir. Talað er um að það taki yfirleitt þrisvar sinnum lengri tíma að jafna sig andlega en líkamlega.

Síðan get ég ekki látið hjá líða að minnast aðeins á afleiðingu sem ég held að sé vegna þess álags sem allt kerfið hefur verið undir, þá grafalvarlegu stöðu sem virðist nú vera komin upp varðandi skimanir fyrir krabbameinum þar sem ásökunum er kastað á milli. Mér finnst mjög mikilvægt að það mál komist sem fyrst á réttan stað. Við erum bæði með konur og karla sem eru í algjörri og fullkominni óvissu núna um hvernig eigi að standa að því að koma þeim málum í réttan farveg.

Ég hugsa að ég láti þetta duga að sinni en tek undir að það er mikilvægt að við setjum þessi lög. Ég er þó á nefndarálitinu með fyrirvara.