151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við erum hér á lokaspretti í umræðu og vinnu við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á sóttvarnalögum sem fela í sér heimildir til að renna lagastoðum undir ákveðnar aðgerðir stjórnvalda til sóttvarna með því að skerða frelsi, ferðafrelsi og atvinnufrelsi fólks. Markmiðið er, eins og hefur komið fram, að skýra gildandi sóttvarnalög með hliðsjón af reynslu heimsfaraldurs kórónuveiru og koma í veg fyrir réttaróvissu um sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda, óvissu um valdheimildir þeirra. Það er gott og það er vel.

Töluverð umræða hefur verið um þetta mál, stóru myndina, síðustu vikur og mánuði og til að einfalda myndina hefur umræðan snúist annars vegar um nauðsyn þess að drífa þetta af, þ.e. þessar lagaheimildir, ekki síst svo krefja megi ferðamenn á landamærum um tvöfalda skimun með sóttkví á milli, að sú lagaheimild sé ótvíræð, en sóttvarnalæknir hefur um nokkurt skeið lagt áherslu á að sú leið verði farin og fært fín rök fyrir máli sínu þar. Hins vegar hefur umræðan síðan snúið að því að þessi umfangsmikla breyting á sóttvarnalögum sem frumvarpið felur í sér sé ekki tímabær nú, ekki fyrr en búið er að meta að fullu áhrif kórónuveirufaraldursins á íslenskt samfélag. Við erum enn í miðju kófinu þó að grilli í endann á því. Þær raddir eru þá á því að það eigi frekar að fara í svona umfangsmiklar breytingar við heildarskoðun, boðaða heildarskoðun á sóttvarnalögum. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir kom inn á það í ræðu sinni áðan að talað væri um að fara yrði í slíka endurskoðun hið fyrsta, næsta haust jafnvel. Það er mjög mikilvægt að kvaðir, þ.e. skyldan til tvöfaldrar skimunar á landamærunum, byggi á skýrum lagastoðum. Möguleikinn til millileiðar, ef við erum að fókusera á þetta tiltekna atriði, var auðvitað til staðar, þ.e. að afgreiða breytingu til bráðabirgða á núgildandi sóttvarnalögum, breytingu sem fæli þessar heimildir í sér og síðan að bíða með frekari breytingar á lögunum. En þetta er leiðin sem ákveðið var að fara og því lagði hæstv. heilbrigðisráðherra þetta frumvarp fram undir lok síðasta árs.

Velferðarnefnd fékk til sín fjölmargar umsagnir og vegna eðlis málsins voru sumar þeirra býsna sértækar því að leitað var til það margra aðila. Annars vegar fögnuðu menn því að verið væri að skýra lagaheimildir, ég held að okkur líði öllum þannig, og það er mikilvægt við þessar fordæmalausu aðstæður sem við búum nú við. En síðan bentu menn, hver með sínu nefi, á vankanta á frumvarpinu og margir komu inn á að það umfang breytinganna í þessu tiltekna máli núna, breytinganna sem verið er að fara í núna, væri ekki beint í samhengi við þörfina sem að vissu leyti væri sértækari.

Breytingartillögur nefndarinnar eru til mikilla bóta og ég hef því sem áheyrnarfulltrúi lýst mig samþykka nefndarálitinu og ég get ekki séð annað þegar ég fer yfir álitið en að tekið sé tillit til þeirra athugasemda, þær nefndar og færð rök fyrir því að einhverju leyti ef ekki er tekið tillit til tiltekinna atriða í breytingartillögum. En það eru býsna margar breytingartillögur. Enn þarf þó að athuga að með lögum sé tryggður sérstakur rökstuðningur og ítarlegt mat á áhrifum stjórnvaldsákvarðana sem takmarka frelsi borgara, ekki síst atvinnufrelsi, áður en þeim er breytt, tryggja að takmarkanir gangi ekki lengra en nauðsyn ber til og fullar bætur komi fyrir. Komið er til móts við þetta ákvæði en það hefði hugsanlega mátt ganga lengra og ég geng út frá því að þetta sé mögulega eitt af því sem við tökum til sérstakrar athugunar í stóru endurskoðuninni, enda vitum við þá hvaða áhrif þetta hefur raunverulega haft.

Ég tel líka mikilvægt að tryggt sé að fleiri ráðherrar en hæstv. heilbrigðisráðherra komi að ákvörðunum á borð við þessar, að fagráðherrar sem viðkomandi greinar samfélagsins heyri undir komi að málum, t.d. að menntamálaráðherra komi að ákvörðunum sem hafa áhrif á og skerða skólastarf eða íþróttastarf, að fjármála- og efnahagsráðherra og eftir atvikum atvinnumálaráðherra komi að ákvörðunum um að stöðva atvinnustarfsemi. Svona mætti áfram telja.

Hv. framsögumaður nefndarinnar, Ólafur Þór Gunnarsson, sagði í ræðu fyrr í dag að það þyrfti að nýta reynsluna af faraldrinum áður en við færum í heildræna endurskoðun. Ég tek heils hugar undir það. Mikilvægt er að heildarmat liggi fyrir áður en farið verður í stærri endurskoðun og að því verður væntanlega miðað og ég get ekki ímyndað mér annað en að við verðum öll sammála um það.

Þær breytingar sem velferðarnefnd náði samstöðu um eru að mínu mati ekki bara til bóta heldur einfaldlega bráðnauðsynlegar úr því að vilji var til að fara út í þetta umfangsmiklar breytingar á þessu stigi. Án þess að ég ætli að telja upp allar þær breytingar sem gerðar voru hefur verið farið vel yfir nokkrar hér í dag. En þær umfangsmestu — og ég kem kannski að því í lokin af hverju ég tilgreini þær sérstaklega, af hverju ég segi bara ekki: Þessu var breytt og við erum góð. En í frumvarpi frá heilbrigðisráðherra var talað um að setja á algjört útgöngubann. Slík heimild hefði fært ráðherranum fordæmalaust vald til að takmarka grundvallarréttindi borgaranna án þess að í því frumvarpi hafi verið kveðið á um forsendur og rökstuðning eða eftirlit með þessu valdi. Sem betur fer náði nefndin samstöðu um að fella þessa heimild burt. Það má líka nefna ákvæði, sem var í upphaflega frumvarpinu sem ráðherra lagði fram, þess eðlis að ráðherra væri heimilt með reglugerð að skylda ferðamenn til að undirgangast ónæmisaðgerðir. Þetta var fellt út í meðförum nefndarinnar. Og síðan er það þessi sérstaka heimild til stöðvunar atvinnurekstrar án þess að því fylgi ítarlegar leiðbeiningar um hvað felist í slíkri nauðsyn, hvernig mat eigi að fara fram og hver réttur er til bóta fyrir tjón sem af þessu hlýst. Þetta eru takmarkanir á atvinnurétti og takmarkanir á eignarrétti sem varða einfaldlega stjórnarskrárbundinn rétt fólks. Þegar ríkið tekur verðmæti eignarnámi tryggja lög fullar bætur fyrir það en ekki þegar tekjustreymi einstaklinga og fyrirtækja er stoppað á grundvelli sóttvarnalaga.

Hér leggur velferðarnefnd til mikilvæga breytingartillögu sem nær þó bara jafn langt og hún nær, með leyfi forseta:

„Ekki skal stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar, svo sem vegna fjölda fólks sem þar kemur saman eða návígis þess eða snertingar.“

Þessir þættir eru þess eðlis að á sama tíma og mjög mikilvægt og jákvætt er að velferðarnefnd skuli hafa náð samstöðu um að stoppa það þá er ákveðið áhyggjuefni að þetta var í frumvarpi sem lagt er fram af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar. Vegna þess sem í þeirri staðreynd felst og í því hvernig öll velferðarnefnd tók á hlutunum ætla ég að nota tækifærið og árétta mikilvægi aðkomu þingsins þegar kemur að heimildum stjórnvalda til að skerða frelsi fólks, sér í lagi atvinnufrelsi og ferðafrelsi. Orðræða hefur átt sér stað um að þess þurfi ekki, að þingið þurfi ekki að koma að þessum málum, það tefji jafnvel afgreiðsluna þó að engin dæmi hafi verið nefnd um það. Ég efast um að hægt sé að finna önnur dæmi um hversu fljótt og vel þing hafi afgreitt svona mál. En talað hefur verið um að það tefji að málið fari hér í gegnum þingið.

Og hér sitjum við uppi með skólabókardæmi um að hefði þingið ekki haft meiri aðkomu að þessu máli, hefði þingið ekki náð samstöðu um að taka þessi ákvæði út, værum við á býsna hættulegri braut þegar kemur að skerðingum á frelsi fólks. Þannig að hafi einhver velkst í vafa um það mikilvægi eða talað um eitthvað betra, að einstakir ráðherrar hefðu rúmar reglugerðarheimildir, frelsi til athafna sjálfir til að skerða frelsi annarra, þá vona ég að með þessum vinnubrögðum velferðarnefndar hafi þeir hinir sömu áttað sig á því að þingið leikur mikilvægt hlutverk í því að standa vörð um réttindi fólks.