151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum góð orð í minn garð. Ég túlka það þannig; góð orð í minn garð. Þetta er risastór spurning og hún er ekkert minni en hin. Í fyrsta lagi er dálítið auðvelt að líta til baka og vera vitur eftir á. Að sama skapi er erfitt að standa hér og taka einhverja afstöðu til mála þegar staðreyndin er sú að maður veit betur en áður. Ef ég á að vera alveg heiðarleg finnst mér að okkur hafi að mörgu leyti tekist ágætlega til. Mér finnst miklu auðveldara að koma með málefnalega gagnrýni á samtal stjórnvalda við þingið þegar kemur að efnahagsaðgerðum en endilega sóttvarnaaðgerðum, bara svo ég segi það fyrir mig. Ég hefði viljað sjá þingið eiga sterkari aðkomu þar og að styrkleikar þingsins væru nýttir í þeim aðgerðum, en ég er ekkert endilega viss um að ég hefði viljað sjá stjórnmálin í heild (Forseti hringir.) stíga frekar inn í sóttvarnaráðstafanir en þau hafa gert undanfarna mánuði. En þetta er eiginlega umræða sem þarf meira pláss.