151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir hennar ágætu ræðu og þakka henni jafnframt fyrir samstarfið í hv. velferðarnefnd um þetta mál. Eins og þingmaðurinn kom inn á var býsna góð og í rauninni mjög frjó umræða í nefndinni um alls konar úrlausnarefni sem við þurftum að taka á. Eitt af þeim efnum sem þingmaðurinn nefndi var skyldubólusetning eða heimild til skyldubólusetningar á landamærum. Ég tek undir með þingmanninum að það hafi verið skynsamlegt að falla frá því að hafa þetta atriði í frumvarpinu að vandlega athuguðu máli. En þá kemur eiginlega að spurningunni. Nú er það svo að 11. gr. frumvarpsins er að stærstum hluta til byggð á sambærilegum ákvæðum úr alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni sem Ísland er aðili að og þar er kveðið á um heimild til ónæmisaðgerða á landamærum eða heimild stjórnvalda til að krefjast ónæmisaðgerða á landamærum. Mig langar að ræða við þingmanninn um þetta. Erum við hér í það mikið öðruvísi stöðu, þ.e. aðstaða okkar almennt, sem land og þjóð og sem samfélag og hvað annað, að önnur sjónarmið eigi að gilda um okkur en hinar þjóðirnar? Eða eru allir hinir bara einhvers staðar úti í móa?