151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Auðvitað eru allir hinir úti í móa. En að öllu gamni slepptu þá er það kannski tvennt sem mig langar að nefna. Í fyrsta lagi er ég persónulega almennt á móti slíkum skylduinngripum. Ég er meðvituð um það sem hv. þingmaður kemur inn á, þessar tillögur eru býsna keimlíkar og í reglugerðinni. Ég tel okkur hins vegar sem samfélag í töluvert annarri og betri aðstöðu en mjög mörg önnur samfélög til að beita fræðslu og öðrum aðferðum, a.m.k. áður en við grípum til þessa úrræðis sem hlýtur alltaf að vera síðasta úrræðið. Það er kannski ekki síst þess vegna sem ég segi að akkúrat þetta ákvæði hefði alltaf átt að vera inni í einhvers konar miklu stærri endurskoðunarpakka sem ekki væri tekinn fyrir á þeim tímum sem við lifum núna vegna þess að þetta er risaspurning. Nú er talað um að við séum bara að byrja að sjá fyrsta umgang af mjög hættulegum sóttum sem munu leika heiminn grátt, kannski er það hin dökka framtíðarsýn og við verðum hér eftir áratug að tala um allt annars konar inngrip og mikilvægari til að vernda mannslíf. En við erum stödd hér núna og við eigum að taka svona stórar spurningar sem varða svo mikið grundvallaratriði á miklu ígrundaðri hátt en í miðju kófinu. Það er eiginlega málið. Annars vegar tel ég okkur vera betur í stakk búin til að ná markmiðinu á annan hátt. Ef ekki þá þurfum við að ræða þetta betur.