151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara svo það sé sagt þá tek ég undir með þingmanninum, ég er á sömu skoðun og hún hvað það varðar. Mér finnst þetta skref það mikið íþyngjandi og það mikil grundvallarbreyting á því hvernig ég a.m.k. hef hugsað þessi mál hingað til, að við megum ekki taka það af neinni léttúð. Ég vona náttúrlega líka að svartsýnisspá þingmannsins um að við eigum eftir að fá fleiri svona faraldra gangi ekki eftir. En ég veit það ekki. Það er bara þannig.

Mig langaði síðan í seinna andsvari að tæpa á aðkomu þingsins að málum og inna þingmanninn eftir því hvort henni þyki það almennt eðlilegt að þingið komi að því, við skulum segja að klukka stjórnvaldsaðgerðir hjá framkvæmdarvaldinu eða að það eigi kannski bara við um mjög íþyngjandi aðgerðir eða sérstök tilvik.