151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála. Þetta er verkefni þess eðlis að þarna á sér stað hagsmunamat sem ekki er bæði stærra og mikilvægara en oftast áður heldur á sér líka stað á þeim tímum sem við höfum ekki endilega aðgang að þeim upplýsingum sem við þurfum. Að hluta til eru ákvarðanir teknar af hyggjuviti, að einhverju leyti vegna þrýstings, að einhverjum hluta af ótta og að einhverjum hluta af vilja til að vernda líf og heilsu borgaranna sem er fyrsta skylda stjórnvalda.

Mig langar kannski, af því að það var ekki bein spurning hjá hv. þingmanni, að koma aftur aðeins að því sem hann talaði um í upphafi, þ.e. að á þeim tímum sem við lifum freistast einstaka ráðamenn til að ganga lengra. Mér var hálfbrugðið þegar ég sá frumvarpið fyrst. Það er kannski það sem er ekki síst lærdómurinn og við þurfum að standa vörð um og það er að þingið hafi þessa aðkomu. Það verður að hrósa framgöngu einstakra stjórnarþingmanna í þessu máli. Ég segi það bara hér. Við í minni hlutanum, og við hv. þingmaður þekkjum það vel, hefðum ekki haft mikið að segja með okkar athugasemdir um þetta mál hefði meiri hlutinn staðið saman. (Forseti hringir.) Það sýnir reynslan og það er jákvætt, þ.e. að þingið stóðst þessa raun.