151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég held að það sé full ástæða til að taka undir þær þakkir sem hafa komið fram við þessa umræðu til hv. velferðarnefndar sem hefur unnið ágætt starf við meðferð þessa frumvarps hér í þinginu. Hér er um að ræða mikilvægt frumvarp í þeim skilningi að það snertir bæði mikilvæga hagsmuni og var tímabært, eiginlega löngu tímabært. Ég get sagt það strax að á haustdögum var ég sjálfur farinn að hafa áhyggjur af því að þær heimildir sem um er getið í sóttvarnalögum væru tiltölulega veik lagastoð undir margar af þeim aðgerðum sem stjórnvöld gripu til. Ég get sagt það að í vor, þegar ég og kannski fleiri gerðum okkur vonir um að hér væri um að ræða erfitt ástand sem myndi ganga yfir á nokkrum vikum, þá leiddi maður minna hugann að þessum þáttum en þegar það fór að renna upp fyrir manni í ágúst og september að herða þyrfti aðgerðir að nýju og þær myndu hugsanlega vara miklu lengur en við höfðum gert okkur grein fyrir fram að þeim tíma, þá fór maður að skoða þetta með öðrum augum. Ég hygg að ég hafi um miðjan ágúst skrifað blaðagrein þar sem ég vakti athygli á þessu og færði í tal við önnur tækifæri að með einhverjum hætti þyrfti að styrkja þær lagaheimildir sem stjórnvöld styddust við í þeirri ákvarðanatöku sem lyti að sóttvarnaaðgerðum og taldi mikilvægt að það yrði sett á dagskrá. Þess vegna fagnaði ég því auðvitað þegar hæstv. heilbrigðisráðherra kom með frumvarp sitt í nóvember og taldi að það væri löngu tímabært að taka þessi atriði til endurskoðunar.

Sú skoðun mín hefur ekki breyst að núgildandi sóttvarnalög hafi að geyma tiltölulega veikar heimildir í mörgum tilvikum. Það er getið um ákveðnar heimildir sóttvarnayfirvalda og heilbrigðisráðherra til reglugerðarsetningar í ákvæðum núgildandi laga en þær eru tiltölulega opnar og almennt orðaðar og veita í sumum tilvikum mjög veika stoð undir ýmsar af þeim aðgerðum sem kveðið hefur verið á um í reglugerðum ráðherra og hafa m.a. komið til umræðu hér á undanförnum vikum. Þá er ég að tala um aðgerðir á landamærum og ég get einnig nefnt aðgerðir sem lúta að stöðvun á rekstri í atvinnulífinu og eins um sóttkví sem slíka. Stjórnvöld brugðust við, ríkisstjórnin brást við í haust og fékk Pál Hreinsson, lagaprófessor og dómara, til að gera ákveðna úttekt sem var gagnleg. Hún svaraði ekki öllum spurningum og Páll kvað auðvitað ekki upp úr um það hvort þær heimildir væru fullnægjandi sem nýttar hefðu verið, enda væri það hlutverk dómstóla en ekki hans. En í góðri skýrslu hans voru margar ábendingar sem síðan var hægt að taka lengra og birtust á endanum í frumvarpi. Það má reyndar geta þess líka að umboðsmaður Alþingis sendi stjórnvöldum áminningu eða ábendingu af þessu tagi í október sem einnig hlýtur að hafa verið til þess fallin að hvetja fólk til dáða í sambandi við endurskoðun á ákvæðum sóttvarnalaga.

Eins og kom fram í 1. umr. um þetta frumvarp í þinginu þá var ég prívat og persónulega ekki alveg dús við alla þætti þess og gerði athugasemdir við einstaka þætti. Ég átti þess kost að koma örlítið að nefndarstörfum. Ég held að ég hafi setið sem varamaður tvo eða þrjá nefndarfundi en kom ekki að lokafrágangi nefndarálits eða breytingartillagna. Ég get þó tekið undir það með nefndarmönnum hér að umræður í nefndinni voru býsna góðar og ég held að nefndin hafi tekið til umræðu og tekið til athugunar flesta þá þætti sem máli skiptu í sambandi við frágang frumvarpsins. Með þessu held ég að ég geti sagt með nokkuð góðri samvisku að frumvarpið sem slíkt hafi að mestu leyti falið í sér framför frá núgildandi löggjöf og þær breytingartillögur sem hv. velferðarnefnd leggur til fela í sér framför frá frumvarpinu. Við getum sagt að þetta þokist í rétta átt, frá mínum bæjardyrum séð, þó að ég neiti því ekki að ég hefði viljað ganga lengra í breytingum að sumu leyti. Látum það nú vera. Til að ná niðurstöðu í svona mál þarf hugsanlega að gera málamiðlanir og meðan meginstefnan er til bóta þá sættir maður sig hugsanlega við að ekki sé komið til móts við öll þau sjónarmið sem maður vildi koma á framfæri í einstökum málum.

Það sem ég vildi geta um sérstaklega í þessu sambandi snertir þátt sem hefur komið töluvert hér til umfjöllunar. Það snýst í fyrsta lagi um það hvernig lagastoð er rennt undir íþyngjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda og í öðru lagi að því hvernig tryggt er að meginreglum, sem ber að virða í sambandi við íþyngjandi ákvarðanir af þessu tagi, verði best framfylgt. Ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá allmörgum þingmönnum hér í dag, að þó að það sé ekki fullkomin lausn þá er það alla vega jákvætt að þingið sem slíkt komi meira að ákvarðanatöku í þessum efnum en verið hefur. Það er öðruvísi fyrir ráðherra að leggja til við þingið að gripið skuli til tiltekinna ráðstafana en að grípa til ráðstafana og koma eftir á til þingsins til að rökstyðja það. Það er töluverður munur á því. Þegar tillaga kemur fram, ef við getum orðað það svo, um að grípa til íþyngjandi ráðstafana þarf að rökstyðja það með ítarlegri og öðrum hætti ef málið er á einhvern hátt borið fyrir fram undir þingið. Það er öðruvísi. Ef frumvarp er lagt fram þarf að koma fram rökstuðningur með því frumvarpi. Slík krafa er ekki gerð varðandi reglugerð sem gefin er út. Hún er gefin út án þess að fara í gegnum umræðu á lýðræðislegum vettvangi. Reglugerðardrög eru oft kynnt í ríkisstjórn og hugsanlega fer fram umræða um þau fyrir luktum dyrum en það er öðruvísi en umræða sem á sér stað í þinginu. Í slíkri umræðu geta komið fram athugasemdir, gagnrýni og eftir atvikum sjónarmið sem skipta máli varðandi hina endanlegu útkomu. Ég tel að það sé að jafnaði betra að svoleiðis umræða eigi sér stað áður en ákvörðunin er tekin en eftir að hún er tekin. Þetta er hin almenna nálgun mín gagnvart þessu viðfangsefni. Ég tel því að það væri til bóta ef aðkoma þingsins væri tryggð með skýrari hætti en nú er.

Þetta snýst líka einfaldlega um það hvað á að vera í lögunum sjálfum og hvað á að vera í reglugerð. Það er ákveðin spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur. Ég er þeirrar skoðunar að í lögum sem fela í sér heimild til skerðingar á stjórnarskrárvörðum réttindum þurfi að vera býsna vel afmarkað hvað má skerða og hvernig og við hvaða tilefni. Ég held að í breytingartillögum hv. velferðarnefndar sé að einhverju leyti komið til móts við athugasemdir sem komu fram um þetta atriði í meðferð málsins í nefndinni. Hvort það er fullnægjandi veit ég ekki. Ég hefði kannski viljað ganga lengra í því að afmarka þessar heimildir betur en gert er í frumvarpinu vegna þess að það er auðvitað þannig að þegar stjórnarskráin kveður á um að eitthvað skuli gert með lögum þá er það út af einhverju. Þegar um er að ræða skerðingu á ýmsum grundvallarréttindum, hvort sem um er að ræða persónuleg réttindi eða atvinnuréttindi eða hvað það nú er, sem reynir á í sambandi við framfylgd sóttvarnaráðstafana, er alveg skýrt að stjórnarskráin gerir kröfu um að það sé gert með lögum. Þegar það er síðan sett í lög þá dugar að mínu mati ekki að segja, svo ég leyfi mér að vitna með frjálslegum hætti í núgildandi lög, að sóttvarnalæknir geti lagt til við ráðherra að mæla fyrir um í reglugerð hvers konar takmarkanir sem geta skilað árangri í því að varna útbreiðslu farsóttar. Það þarf að vera betur afmarkað, betur skilgreint. Frumvarpið felur vissulega í sér framför frá núgildandi lögum að þessu leyti. Ég held að breytingartillögur velferðarnefndar geri það líka, séu í rétta átt. En það er grundvallarregla að skerðing stjórnarskrárbundinna réttinda þarf að fara fram með lögum. Það er bæði, eins og ég nefndi áðan, til þess að málið fái þá umræðu sem þörf er á áður en ákvörðun er tekin. En það byggir líka að vissu leyti á þeirri hugsun að þeir einu sem geti skert hin stjórnarskrárvörðu réttindi séu þeir sem eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga og bera síðan sína ábyrgð gagnvart kjósendum.

Þetta vildi ég nefna í þessu sambandi og án þess að fara nánar út í þessar vangaveltur þá fagna ég því að hv. velferðarnefnd hefur aðeins stigið skref í þá átt að afmarka betur hvenær tilteknum ráðstöfunum verði beitt. Ég held að það hefði hugsanlega mátt ganga lengra í því og skýra enn frekar í frumvarpstextanum eða lagatextanum sjálfum hvenær heimilt væri að grípa til íþyngjandi aðgerða, hvert umfang slíkra aðgerða ætti að vera og hver takmörk þeirra séu í tíma og rúmi. Ég held að það hefði verið til bóta að ganga jafnvel lengra að því leyti.

Það er líka til bóta sem kemur fram í frumvarpinu að það er áréttað að hafa skuli í heiðri ýmsar meginreglur bæði stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar okkar um meðalhóf og jafnræði og annað þess háttar. Það breytir ekki réttarstöðunni að því leyti að meðalhófsregla, jafnræðisregla og aðrar slíkar meginreglur eru í gildi í dag. Það er ekki þannig að þó að skrifað sé berum orðum í lagatexta að gæta skuli meðalhófs, þá sé verið að búa til einhverja nýja reglu. Meðalhófið gildir jafnt í dag og eftir samþykkt þessa frumvarps og sama með jafnræðið. Það að skrifað sé inn í frumvarpstextann að gæta skuli jafnræðis eða meðalhófs gerir ekki að verkum að ný réttarregla verði til að þessu leyti. Það er ágætt að árétta þetta þannig að þeir sem vinna með lögin og vinna eftir lögunum séu stöðugt minntir á að það þarf að gæta þessara grundvallarreglna.

Það skiptir kannski líka máli í þessu sambandi að árétta að þegar verið er að beita reglum af þessu tagi þurfa menn að geta rökstutt hvernig meðalhófs sé gætt og menn þurfa að rökstyðja að jafnræðis sé gætt. Það nægir ekki, eins og stundum hefur borið við hér, að menn segi bara: Auðvitað hafði ég í huga jafnræði. Auðvitað hafði ég í huga meðalhóf. Það skiptir máli að menn geti rökstutt hvernig þessum meginreglum stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar var fylgt við ákvarðanatökuna. En látum það vera. Þetta er jákvætt varðandi frumvarpið og ágætt að þetta sé áréttað líka í áliti hv. velferðarnefndar.

Það er eitt atriði, í framhaldi af umræðu sem hefur átt sér stað hérna, sem ég vildi nefna og það varðar áhyggjur sem stundum koma fram af því að það sé með einhverjum hætti svo þungt í vöfum og svifaseint að bera þurfi ákvarðanir eða reglur undir þingið. Það hefur auðvitað verið vísað til þess að við höfum því miður of oft á undanförnum árum þurft að grípa inn í t.d. verkfallsátök með lagasetningu. Það hefur jafnvel verið gert þannig að farið hefur verið með slíkar ákvarðanir í gegnum þingið á einum til tveimur dögum, lagafrumvörp sem hafa falið í sér stöðvun verkfalla og tiltekna málsmeðferð í framhaldi af því. Það hefur verið hægt að gera. Það hefur haft þann kost að það er þá hið lýðræðislega kjörna Alþingi sem tekur ákvörðun um skerðingu þeirra stjórnarskrárvörðu réttinda sem verið er að skerða í viðkomandi tilvikum. Við höfum líka fjölmörg dæmi frá undanförnum árum um að farið hefur verið í gegnum þingið með lagafrumvörp sem hafa falið í sér efnahagslegar ráðstafanir eða aðrar slíkar ráðstafanir á tiltölulega stuttum tíma ef hagsmunirnir hafa verið með þeim hætti að það hefur verið nauðsynlegt. Í kjölfar hrunsins fórum við með ótal lagabreytingar í gegnum þingið á skömmum tíma sem skiptu verulegu máli, vörðuðu mikla hagsmuni margra og þurftu að gerast hratt, stundum þannig að það varð að afgreiða málið frá því að fjármálamarkaðir lokuðu kl. fjögur og áður en þeir opnuðu aftur kl. níu morguninn eftir. Þingið gekk í þau verk og gat klárað þau. En kosturinn umfram það að taka slíkar ákvarðanir með annaðhvort stjórnvaldsákvörðunum eða stjórnvaldsreglum, reglugerð sem ráðherra setur, var að þrátt fyrir að þetta tæki bara nokkra klukkutíma í þinginu þá fengu frumvörpin eða þær tillögur sem verið var að fjalla um þó ákveðna umræðu hér á þessum vettvangi. Þær fengu umfjöllun í nefnd. Þar gafst kostur á að kalla eftir mismunandi sjónarmiðum. Sá sem lagði fram tillögurnar, ráðherra eða eftir atvikum annar, þurfti fyrir fram að rökstyðja hvað hann ætlaði að gera og hvers vegna.

Það er kannski það sem mér finnst helst standa út af í þessu máli að mér finnst ekki gætt nægilega að aðkomu þingsins. Ég held að þeir sem hafa lagt upp með að lögin eigi að vera afar almenn og reglugerðarheimildirnar rúmar, eins og ég skil t.d. málflutning hins háa heilbrigðisráðuneytis, séu að ofmeta það vandamál sem fylgir því að fara með mál í gegnum þingið. Ég held að menn séu að ofmeta það og mikla það fyrir sér að það sé endilega svo tímafrekt eða erfitt að bera tilteknar ákvarðanir undir þingið. Og þegar ég tala um ákvarðanir í þessu sambandi er ég auðvitað ekki að tala um einstakar stjórnvaldsákvarðanir sem þarf að taka frá degi til dags. Ég er að tala um reglur, þegar verið er að breyta reglum sem eiga að hafa gildi í vikur eða mánuði eða eitthvað þess háttar. Það er hægt með léttum leik að fara með slíkt í gegnum þingið ef hægt er að sýna fram á nauðsyn þess og mikilvægi og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þingið stöðvi það ef menn geta raunverulega rökstutt að það sé mikilvægt og nauðsynlegt.