151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því hversu langan tíma það tekur mig að koma mér í pontu, það er langt í sætið mitt og eftir gærdaginn held ég að enginn Miðflokksþingmaður hlaupi neitt næstu vikurnar. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir prýðisræðu. Ég var að reyna að átta mig á því út frá nefndarálitinu og spurði í kjölfarið hv. þingmann okkar Miðflokksins í velferðarnefnd, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, og mér sýnist sem svo að samanburður við norrænan rétt hafi kannski ekki verið mikið stundaður við vinnslu þessa máls. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það gæti verið til bóta, málinu til framdráttar, að nefndin skoði aðeins hvernig lagabreytingum hafi verið háttað á Norðurlöndunum á síðasta ári, sem eru með svipað lagakerfi og við og þar sem menn hafa brugðist við svipaðri stöðu og við erum hér að bregðast við seint og um síðir. Það er kannski ekki sérstaklega viðeigandi að viðhafa slíkan samanburð núna, bara í ljósi þess hversu samtvinnuð staðan hér er þeirri stöðu sem er hjá þessum þjóðum sem við berum okkur svo gjarnan saman við.