151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alltaf gagnlegt að fylgjast með lagasetningu og umræðum um lagasetningu á Norðurlöndunum, sérstaklega í þeim löndum sem búa við líkast lagakerfi. Lagalega og réttarfarslega erum við skyldust Dönum og Norðmönnum í þessum efnum en það geta komið gagnlegar ábendingar og hugmyndir eða tillögur sem byggja á reynslu Svía og Finna. Án þess að ég hafi fylgst með því í smáatriðum hvað er að gerast í þessum löndum þá veit ég þó að í Danmörku er í þessari viku, og var í þeirri síðustu, verið að fjalla um breytingar á sóttvarnalögum í danska þinginu og eftir mínum upplýsingum hafa komið fram alls konar sjónarmið sem eru áþekk þeim sem komið hafa fram í umræðum hér.

Nú veit ég ekki hvernig staða mála þar er akkúrat í dag en í umræðum um frumvarp heilbrigðisráðherra í Danmörku, um breytingu á sóttvarnalögum, hefur einmitt komið upp umræða um aðkomu þingsins að ákvörðunum. Þegar fyrstu drög voru kynnt þar fyrir jól var gagnrýnt að ekki hefði verið gert ráð fyrir nægri aðkomu þingsins. Það hafði að einhverju leyti breyst þegar frumvarpið var lagt fram og gert ráð fyrir því að í tilteknum tilvikum yrði það borið undir þingnefnd hvort grípa skyldi til tiltekinna ráðstafana. Ég held að það geti verið gagnlegt að setja sig inn í þær umræður og sjónarmið sem koma fram þar, án þess að til sé eitthvert eitt módel í þessum efnum, og farnar eru mismunandi leiðir í mismunandi löndum í kringum okkur. Það opnar fyrst og fremst augu mín fyrir því að sú umræða sem hér á sér stað er ekkert einsdæmi. Verið er að ræða í fleiri löndum (Forseti hringir.) hvort reglugerðarheimildir ráðherra í þessum efnum eigi t.d. að takmarkast með einhverjum hætti af samráði við þingið o.s.frv.