151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók það fram í ræðu minni að ég teldi að frumvarpið fæli í sér framför frá núgildandi lögum og að breytingartillögur hv. velferðarnefndar væru til bóta miðað við frumvarpið eins og það var lagt fram. Ég held að þetta sé nú allt að þokast í rétta átt, bara svo það sé sagt. Ég nefndi það í ræðu minni áðan að ég teldi að ástæða gæti verið til þess að afmarka betur hvenær hægt væri að grípa til tiltekinna íþyngjandi ráðstafana. Ég er hins vegar raunsær og tel að sú niðurstaða sem birtist í áliti meiri hluta velferðarnefndar sé ákveðin málamiðlun einhverra sjónarmiða og ég ætla ekki að hlaupa frá þeirri málamiðlun sem flokksfélagar mínir í nefndinni hafa tekið þátt í að gera. En ef ég ætti að nefna eitthvað eitt þá myndi ég nefna það að hugsanlega væri hægt að afmarka betur hvenær grípa mætti til aðgerða sem fela í sér íþyngjandi ráðstafanir gagnvart stjórnarskrárvörðum réttindum.