151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu. Mig langar aðeins að spyrja hann álits á því að það hefur komið fram, m.a. frá Samtökum atvinnulífsins, að nauðsynlegt sé að stjórnvöld láti fara fram óháða rannsókn á faraldrinum hér á landi og hvernig til hafi tekist um sóttvarnir, hverjar afleiðingarnar hafa verið á efnahag fólks og fyrirtækja, hverjar félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar séu og ekki síst hvernig takast eigi á við hliðstæða atburði sem síðar kunna að verða. Nú er þessi rannsókn ekki kannski hugsuð til að finna einhvern sökudólg, alls ekki. En það eru ýmsar spurningar sem þarf að svara í þessu sambandi og fara í heildarúttekt á faraldrinum og afleiðingum hans og fjalla um efnahagsleg áhrif heildstætt og síðan áhrif einstakra sóttvarnaaðgerða. Gleymum því ekki að atvinnuleysið hefur verið gríðarlegt, aukist verulega og haft mikil áhrif og afleiðingar þess eru alvarlegar. Hér er sem sagt spurt um hvort skynsamlegt sé að fara í svona óháða rannsókn. Það kemur t.d. fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins að þau telji skynsamlegt að bíða með breytingu á sóttvarnalögum þar til faraldurinn sé yfirstaðinn og niðurstöður þessarar óháðu rannsóknar, sem yrði þá ráðist í, lægju fyrir. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessu, hvort hann telji ekki að þetta væri skynsamleg leið, (Forseti hringir.) þannig að við lærum af þessu og sjáum hvað hefur virkað og hvað virkar ekki o.s.frv.