151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta kannski vera tvö aðskilin mál. Annars vegar er það spurningin um það hvenær við teljum nauðsynlegt að breyta núgildandi sóttvarnalögum þannig að lagastoð þeirra aðgerða sem verið er að grípa til sé sæmilega fullnægjandi og svo hins vegar einhvers konar eftirámat eða eftiráskoðun sem síðan kann að leiða til heildarendurskoðunar sóttvarnalaga. Ég var akkúrat á fundi í velferðarnefnd þegar fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins komu til að gera grein fyrir sinni umsögn og ég gat ekki skilið fulltrúa þeirra þannig að samtökin legðust gegn því að farið væri í afmarkaðar breytingar núna til þess að leysa hugsanlega úr lagalegum álitamálum sem uppi eru varðandi lagastoð einstakra sóttvarnaaðgerða. Ég skildi fulltrúa Samtaka atvinnulífsins sem mættu á fund velferðarnefndar ekki svo að þeir legðust gegn öllum breytingum á sóttvarnalögum nú vegna þess að þeir teldu einfaldlega að það ætti að fara í einhverja heildarendurskoðun síðar. Þeir voru spurðir um þetta sérstaklega. Þannig að mér finnst þetta vera tvö mál. Annars vegar það að þegar ábendingar hafa komið fram um að það þurfi að styrkja lagastoð tiltekinna aðgerða, sem eru í gangi eða geta komið til tals, þá þarf að nálgast það verkefni hratt. En síðan get ég alveg tekið undir það sem framtíðarmúsík að þegar við erum komin út úr þessum stormi þá skiptir kannski máli að fara í greinargóða úttekt á því (Forseti hringir.) hvað tókst vel og hvað ekki og hvernig við getum dregið lærdóm af því.