151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þar séum við komin inn á mál sem varðar samspil útlendingalaga og sóttvarnalaga. Ég held að það sem einfaldlega myndi gerast í núgildandi lagaumhverfi væri að við slíkar aðstæður þá gætum við ekki vísað úr landi þeim sem sækti um hæli. Þá þyrftum við að fara í þann lagaramma sem á við um það. En ég vildi bara nefna það, án þess að ég sé sérfróður um ástand í nágrannalöndunum, að þegar talað er um það í fréttum að þetta eða hitt landið sé að loka eða svo til loka landinu þá er það nú ekki þannig í raun og veru. Danir gáfu út mikla tilkynningu um að þeir væru að loka landinu fyrir ferðum fólks. En svo eru kannski á tveimur blaðsíðum (Forseti hringir.) listaðar upp ótal undantekningar. Svona yfirlýsingar sem oft rata í fréttir kunna að vera (Forseti hringir.) stærri en innihald gefur tilefni til.