151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað verðum við að sætta okkur við að þetta verður aldrei algerlega svart/hvítt. Þarna mun alltaf reyna á mat, hvort heimildir séu fullnægjandi eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans geri það að verkum að heimildirnar verði skýrari en þær eru í dag. Við getum sagt sem svo að svigrúm til frjáls mats sé með vissum hætti þrengt. En við munum ábyggilega seint ná því marki að lögin séu svo skýr varðandi öll þau tilvik sem upp geta komið að ekki geti komið til lögfræðilegs ágreinings. Ég held að við náum því marki aldrei. En miðað við núverandi réttarástand þá held ég að þetta sé til framfara og til bóta. Ég held að við séum að fækka lagalegum álitamálum með því að afgreiða þetta frumvarp, með þeim breytingum sem hv. velferðarnefnd leggur til.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í ræðu minni taldi ég að hugsanlega væri hægt að ganga lengra í því að afmarka þessar heimildir betur og útfæra þær betur. Ég held að það sé alveg hægt. Eins og ég hef sagt áður leggst ég ekki gegn því að málið fari í gegn í þessu formi til að laga þann vanda sem við erum að glíma við núna. Ég leggst ekki gegn því að þetta verði klárað í þessari mynd af því að það væri hugsanlega hægt að gera þetta aðeins betur, bara þannig að það sé skýrt. Ég hefði viljað ganga lengra að sumu leyti en ég get fallist á þá málamiðlun sem ég sé birtast í nefndaráliti velferðarnefndar.