151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær vangaveltur sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er hér með eru þess eðlis að sennilega verður ekki úr þeim skorið nema fyrir dómstólum. Telji einhver að hann hafi orðið fyrir óréttmætu tjóni vegna aðgerða stjórnvalda sem t.d. styðjast ekki við næga lagastoð verður ekki úr því skorið nema fyrir dómi. Þetta held ég að hafi komið fram hjá Páli Hreinssyni og reyndar hjá umboðsmanni Alþingis líka varðandi spurningar af þessu tagi. Sjálfur hef ég, eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar, nefnt það á ýmsum vettvangi frá því í ágúst, september að þörf væri á að styrkja lagaheimildir fyrir þeim aðgerðum sem verið væri að grípa til. Afstaða mín í þeim efnum hefur legið fyrir, að það séu (Forseti hringir.) a.m.k. veikar lagaheimildir í ýmsum tilvikum. Ég tel að frumvarpið og breytingartillögur nefndarinnar séu til þess fallnar að styrkja þessar heimildir (Forseti hringir.) þó að það verði hugsanlega ekki róið fyrir allar víkur í því sambandi eða öll vafamál leyst.