151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar að taka stuttlega til máls við 2. umr. um breytingu á sóttvarnalögum. Það er margt áhugavert sem hefur komið fram í umræðunni í dag og greinilegt sem betur fer að þingmenn eru heilt yfir sammála um að vel hafi tekist til með samstarfið í velferðarnefnd. Ég vil bara nota tækifærið og óska hv. framsögumanni nefndarálits til hamingju með það ágæta starf sem þarna hefur verið unnið, hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Maður heyrir að hér eru þingmenn sem telja, eins og gengur auðvitað, að of skammt hafi verið gengið hvað ákveðna þætti varðar en sætta sig ágætlega við útfærsluna á þeim forsendum að þetta sé til bóta og skref í átt að því sem viðkomandi telja fullnægjandi. Þá er kannski sérstaklega verið að horfa á þætti sem snúa að heimildum og afmörkun heimilda og með hvaða hætti fært er að beita þeim.

Það eina sem kom mér kannski á óvart hvað starf nefndarinnar varðar er það sem ég kom inn á í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson áðan. Það var bara af því að ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en á þeim tímapunkti og væri gott ef hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson gæfi sér tíma í andsvar á eftir, en ég get auðvitað farið í andsvör við hann eftir ræðu hans síðar. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið framsögumanns málsins gagnvart því hvort ekki hefði verið skynsamlegt, sérstaklega í ljósi þess hversu mikil sátt virðist vera um vinnu nefndarinnar, að farið hefði verið í dálitla greiningu á norræna réttinum og hvernig hann hefur þróast í sóttvarnamálum síðasta árið. Það er svo algengt, eins og við þekkjum, að horft sé til norræns réttar þegar verið er að vinna með ný lög eða endurskoðun gildandi laga hér í þinginu. Ef málið er til að mynda kallað inn til nefndar milli 2. og 3. umr. til að skoða þetta ætti það hvorki að vera átakamikið né tefja lokaafgreiðslu málsins mjög mikið. Það blasir enda við að það er bitamunur en ekki fjár hvort þetta mál, sem er núna í vinnslu einum tíu, ellefu mánuðum eftir upphaf faraldursins, klárast nokkrum dögum fyrr eða seinna hvað lokaafgreiðslu varðar.

Að viðbættri þessari athugasemd þá langar mig að koma inn á annað atriði sem blasir við að rætt hefur verið í nefndinni, en ég finn því ekki stað í nefndarálitinu, alla vega hvað varðar það að horft sé til þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í umsögn Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns og löggilts endurskoðanda. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp stuttan kafla úr umsögn Einars þar sem er fjallað um framsalsheimildir til framkvæmdarvalds:

„Mér er mjög til efs að svo víðtækt valdframsal til framkvæmdarvaldsins standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, yrði frumvarpið að lögum. Í VII. kafla stjórnarskrár eru ákvæði um mannréttindi, svo sem í 67. gr. um að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þegar vísað er til þessarar heimildar um að takmörkun þurfi að hvíla á lagaheimild er átt við sett lög frá Alþingi. Virðist sem dómstólar setji löggjafanum mjög strangar skorður við framsali á slíku valdi til framkvæmdarvaldsins. Þá verður við lögleiðingu slíkra heimilda að gæta meðalhófs.“

Síðan svarar Einar S. Hálfdánarson í umsögn sinni við því að hann telji að slíks meðalhófs sé ekki gætt eins og frumvarpið var lagt fram af ráðherra í upphafi. Þetta er af sama meiði og sjónarmið hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan í svari við andsvari mínu þess efnis að ef það væri eitthvert eitt atriði sem hann teldi að hefði mátt fara betur þá væri það þessi afmörkun á heimildunum, framsalsheimildum og þvingunarheimildum sem verið er að færa stjórnvöldum með þessari lagasetningu.

Ég gef mér að þetta sé fullrætt. Mér finnst það bara blasa við að eftir mikla umfjöllun í nefndinni hljóti niðurstaðan að hafa verið að stíga ekki meira í mót þessum sjónarmiðum heldur en gert er. Ég skil svar hv. þm. Birgis Ármannssonar þannig að niðurstaðan hafi verið sú að láta gott heita hvað þetta varðar og að nefndin legði til að þetta yrði ekki skilgreint eða afmarkað með skýrari hætti en nú er gert. En aftur á móti, ef niðurstaðan verður sú að málið verði tekið inn til nefndar milli 2. og 3. umr., sérstaklega til að skoða þróun norræns réttar og gera samanburð við hann — þetta er auðvitað mjög lifandi lagaumhverfi núna, lagaumhverfi sóttvarna. Ég held að það sé búið að fara í gegnum, ef ég skil það rétt, tvo tiltölulega stóra lagabálka í Danmörku nú þegar. Ég man ekki ákveðna dagsetningu á því hvenær fyrri breytingin var samþykkt en það var tiltölulega fljótlega eftir að faraldurinn tók sig upp. Hér heima höfum við aftur á móti miklu meira verið í, í besta mögulega skilningi þess orðs, smáskammtalækningum. Við höfum verið að bregðast við mjög afmörkuðum málum og flest þeirra hafa auðvitað verið á efnahagssviðinu. Stjórnvöld hafa leyft sér, held ég að mér sé óhætt að segja, að túlka mjög rúmt þær heimildir sem þau hafa samkvæmt núgildandi lögum. Það þarf ekki annað en að hlusta á og horfa til sjónarmiða hinna ýmsu lögfræðinga sem hafa bent á, án mikilla andmæla, að stjórnvöld væru að teygja þetta og toga mjög í núverandi ástandi. Þess vegna kemur svolítið á óvart að við séum í þessum sporum, að vinna þessa vinnu núna svo löngu eftir að faraldurinn bankaði upp á og raunin er.

Ef málið verður tekið til nefndar milli 2. og 3. umr. þá held ég að það væri áhugavert að sú vinna skilaði af sér framhaldsnefndaráliti, sem mér þykja allar líkur á miðað við vinnu nefndarinnar hingað til að yrði í sátt nefndarmanna. Er það ekki rétt hjá mér að það eru allir nefndarmenn sem skrifa undir? Jú, það eru allir, en fimm að vísu með fyrirvara. Þeir hafa allir útskýrt sína fyrirvara. Meiri hluti nefndarinnar er með fyrirvara. Þetta er nú orðið ágætt, ég hefði ekki átt að lesa þetta. En við verðum að treysta því að hv. framsögumanni, Ólafi Þór Gunnarssyni, muni takast það aftur að fá alla með sér á framhaldsnefndarálit, sem ég held að væri mikilvægt innlegg í þetta mál. Ég er ekki að leggja þetta til til að skapa einhverja úlfúð í nefndinni eða að slá pólitískar keilur, en vegna þess hvernig málið er vaxið þá held ég að það væri gott fyrir þingið að hafa betur grundaðan rökstuðning fyrir því af hverju menn draga línuna þar sem hún er dregin núna hvað varðar afmörkun heimildanna og svigrúm til nýtingar og síðan að hafa þennan samanburð við þróunina í norræna réttinum. Ég held að þetta væri margra hluta vegna til mikilla bóta. Ég hvet hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson til að hafa frumkvæði að þessu. Ég er nokkuð viss um að fyrirvörunum mun fækka á framhaldsnefndaráliti frá því sem nú er.

Þetta er það sem ég vildi segja um þessa þætti. Á almennum nótum er auðvitað ótækt annað en að þetta regluverk verði uppfært og það, þó að það sé vont að nálgast málið þannig, fært nær raunveruleikanum sem við okkur blasir núna. Það mun örugglega líka gera þeim kleift að spyrna við, þeim sem verða fyrir íþyngjandi aðgerðum stjórnvalda og iðulega til fjártjóns, sérstaklega þeim sem standa í rekstri, að dregin sé ný lína í sandinn þar sem heimildirnar eru skýrari, þó að þær mættu sannarlega vera mun skýrari en þær eru núna. Ég vona að því fylgi ákveðin viðspyrna fyrir þá sem hafa talið sig lenda, ef svo má segja, öfugum megin hryggjar þegar kemur að skilgreiningum núverandi sóttvarnalaga og útfærslu íþyngjandi aðgerða stjórnvalda sem hafa valdið fyrirtækjum, rekstraraðilum og einstaklingum og í rauninni þjóðinni allri verulegu fjárhagslegu tjóni í hartnær heilt ár núna. Ég held að þetta sé til bóta. Og þó að málið væri tekið inn til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. til að skoða þessa tvo þætti þá held ég að nokkrar dagar til eða frá skipti kannski ekki öllu máli eftir þessa tíu, ellefu mánuði frá því að faraldurinn brast á.

Síðasta atriðið sem ég ætla að nefna er það sem snýr að aðkomu Alþingis. Mér sýnist á öllu að það hefði farið betur á því að gera ráð fyrir aðkomu Alþingis í ríkara mæli en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og nefndarálitið, ef svo má segja, undirstrikar og rammar inn. Ég vil nefna það hérna. Ég reikna ekki með neinum sérstökum breytingum í þeim efnum en ég held að þegar kemur að heildarendurskoðuninni, sem mér heyrist nú að flestir sem hér hafa rætt um hana sjái fyrir sér að þurfi að eiga sér stað innan ekki mjög langs tíma, þó að það verði væntanlega ekki fyrr en faraldurinn er um garð genginn, þá hljóti að koma til skoðunar að bæta í hvað þá aðkomu varðar. En ég ætla að láta þessu lokið að sinni og ég óska okkur þingmönnum öllum góðs gengis með þetta mál áfram.