151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka kærlega fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Margar vangaveltur hafa komið upp og mörg álitaefni. Án þess að ég telji upp sérstaklega hver þau eru eða hverjir hafi komið fram með þau þá hafa þau snúið að þáttum eins og aðkomu þingsins. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan kemur nefndin til móts við þau sjónarmið, ekki kannski að fullu en að nokkru. Meginástæðan fyrir því að ekki er farið lengra á þessu stigi málsins liggur í rauninni í því, sem ég útskýrði kannski ekki nægilega í fyrri ræðu minni, að samstaða var um það í nefndinni að við þessa endurskoðun eða við þessa umferð væri kannski ekki ástæða að taka ákvarðanir sem breyttu beinlínis stjórnsýslunni í sóttvarnamálum í þessum faraldri. Það var pælingin og rétt að útskýra þetta atriði örlítið betur.

Vangaveltur um sérlög hafa líka komið fram í ræðum þingmanna og það var skilningur minn, og ég held flestra nefndarmanna, nema þeirra sem hafa tjáð sig sérstaklega um að þeir séu með fyrirvara gagnvart því, að þær umsagnir sem komu frá lögspekingum og sérfræðingum í stjórnskipunarrétti bentu meira í þá átt að skynsamlegra væri að hafa löggjöfina almenna. Þess vegna er sú leið farin.

Menn hafa líka velt því upp af hverju við stigum ekki skref í þá átt að breyta verkefnum sóttvarnaráðs. Það er ekki gert, af sömu ástæðu og ég nefndi áðan; stjórnsýslan í þessum faraldri hefur verið svona. Hins vegar tökum við mjög skýrt fram í nefndarálitinu að þetta þurfi að skoða betur og ég tek bara heils hugar undir með þeim sem hafa nefnt það. Ég sé fyrir mér að sóttvarnaráð hafi svipaða stjórnskipulega stöðu og til að mynda skimunarráð hefur í dag. Skimunarráð kemur ekki að verkefnum frá degi til dags, skulum við segja, heldur leggur breiðu línurnar. Ég sé fyrir mér að sóttvarnaráð væri meira þannig. En þetta er eitthvað sem þarf að ræða og við töldum að betra væri að gera það við heildarendurskoðun.

Nokkrir hv. þingmenn hafa nefnt sóttvarnahús. Í nefndarvinnunni kemur það upp að ákveða hreinlega að skilgreina sóttvarnahús annars vegar og hins vegar heimildir sóttvarnalæknis til að segja fyrir um að slíkt sé stofnað. Það er meira til að þétta lagastoðir og þær heimildir sem sóttvarnalæknir hefur í þessu máli.

Þingmenn hafa nefnt samanburð við Norðurlöndin og löggjöfina þar. Reyndar held ég að það hafi aðallega verið hv. þm. Birgir Ármannsson og Bergþór Ólason sem nefndu það sérstaklega. Nefndin skoðaði aðeins hvaða heimildir væru til í löggjöf þar, eins og með skyldubólusetningar, með lokanir á landamærum og fleira. Við fengum m.a. minnisblað frá nefndasviði Alþingis um það. En aftur, m.a. af því að löggjöfin á Norðurlöndunum er í svona flúxi, ef það er orð, var það metið svo að kannski væri ekki byggjandi á því akkúrat núna heldur ætti frekar að sjá hvernig staðan væri þegar faraldrinum væri lokið og heildarendurskoðun stæði fyrir dyrum.

Ég held að ég hafi þá í stórum dráttum drepið á þeim málum sem koma sóttvarnalöggjöfinni beint við. Enn og aftur þakka ég hv. nefnd sérstaklega fyrir þá vinnu sem unnin var í þessu máli. Eins og ég nefndi áðan komu allir nefndarmenn að því að bæta málið sem er nákvæmlega það sem á að gerast í störfum þingsins. Ég er þokkalega sáttur við þá niðurstöðu sem við höfum komist að og fagna því að við séum komin á þennan stað með málið.