151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég sagði áðan átta ég mig alveg á því að þetta snýst um það hvernig hægt væri að valdefla minni hlutann með einhverjum öðrum hætti. Ég hygg að margir, jafnvel flestir, flokkar sem sæti eiga á Alþingi, hafi á einhverjum tímapunkti tekið þátt í einhvers konar málþófi. Það hefur einmitt verið ástæðan fyrir því að erfitt hefur verið að ná samkomulagi um að hefta málfrelsi þingmanna, þ.e. að ganga gegn þessu með ræðutímann. Það sem ég var kannski að reyna að koma inn á í ræðu minni er að það er jafnvel þannig, ef ég hef skilið það rétt, hjá nágrannaþjóðum okkar að þó að ekki séu einhverjar stífar reglur er hefðin sú að fólk tali ekki í meira en sjö mínútur eða meira en 15 mínútur eða eitthvað slíkt. Það væri kannski möguleiki hjá okkur þó að við næðum ekki svo langt. Ég get alveg deilt áhuga með hv. þingmanni á því að við næðum raunverulegum árangri þegar kemur að þeim málum að minni hlutinn hafi líka ákveðin völd hér önnur en málþófið. Þá velti ég því líka fyrir mér, við erum ekki alltaf að tala um málþóf en við erum oft með rosalega langar og miklar ræður um ýmis mál. Ég er ekki að segja að ég vilji ekki heyra skoðanir hv. þingmanna á málunum, ég er bara að segja að í nútímasamfélagi færi, held ég, betur á því ef við værum oft sneggri og snarpari og þá kæmu kannski fleiri inn í umræðuna og segðu skoðun sína á ákveðnum málum í staðinn fyrir langar og miklar ræður frá kannski fáum þingmönnum.

Það er alveg áhugavert í því efni að líta á ræðukónga og ræðudrottningar og ég viðurkenni það að ég er ein af þeim sem tala hvað mest úr mínum flokki en það er þó bara lítið hlutfall af þeim sem tala allra mest. Það má reyndar líka, svo að ég setji kynjagleraugun upp, velta því upp hvað er rosalega mikill munur á því hvað karlar og konur í þessum þingsal tala mikið. Þar er áberandi munur og spurning af hverju það er.