151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð. Já, ég vona að ég geti sagt það af einlægni að mér þykir ákaflega vænt um þessa stofnun. Ég hef eytt hér miklu meira en helmingi ævidaga minna, verið hér viðloða og er nú ekki oft sem það gerist, held ég, hjá mönnum. Umhyggja mín og væntumþykja hefur vaxið með árunum gagnvart þessari stofnun. Ég hef líka upplifað það svo oft hversu gríðarlega mikilvæg, eiginlega óendanlega mikilvæg, hún er í heimi þar sem lýðræðið stendur ekki alls staðar sterkum fótum, er brothætt og margt mæðir á. Þá eigum við að vera þakklát fyrir að vera svo gæfusöm að eiga lýðræðislega kjörið þing, æðsta vald í okkar málum, og passa vel upp á það.

Það sem hv. þingmaður nefndi um nefndarstarfið var nú eiginlega algerlega það sama og ég var að segja. Ég tel að menn horfi oft fram hjá því hversu gríðarlega miðlægur hluti af starfsemi Alþingis það er, þeim hluta sem snýst um löggjafarstarfið, afgreiðslu mála og auðvitað rannsókn og aðhald með framkvæmdarvaldinu og allt sem þar er til húsa. Og möguleikar manna til að ná þar áhrifum eru miklir. Ég hef ekki verið talsmaður þess að opna nefndarfundi alfarið vegna þess að það hefur ákveðna ókosti líka í för með sér fyrir trúnaðarsamskiptin þar. En ég hef auðvitað hugleitt það að ef nefndarstörfin væru í meira mæli opin fengju menn miklu meiri innsýn í það hversu mikið þar er unnið og sæju kannski aðeins aðra mynd af ýmsu sem hér fer fram.

Er ég er sammála um að það skorti meiri aga? Já, upp að vissu marki er ég það. Mér finnst að þingið mætti vera örlítið þýskara að því leyti til að við hefðum meiri metnað (Forseti hringir.) gagnvart því hvað við reynum að leysa okkar í milli á til þess bærum vettvangi, í þingnefndunum, í forsætisnefnd, á vettvangi með formönnum þingflokka, (Forseti hringir.) og hvað við bærum á torg hér í salnum.