151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[19:46]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á útlendingalögum til að hemja útgjöld ríkissjóðs og auka skilvirkni í málsmeðferð. Meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Miðflokksins Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þingsályktunartillagan styðst við ýmsar heimildir, þar á meðal upplýsingar frá Útlendingastofnun og stefnuskjöl stjórnmálaflokka og ríkisstjórna á Norðurlöndunum. Tillaga Miðflokksins er sett fram með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóða, með áherslu á nýlega norræna stefnumörkun. Tillagan styðst við mannúðarsjónarmið eins og hér verður nánar rakið.

Vakið hefur athygli að hvergi á Norðurlöndunum eru jafn margar umsóknir um alþjóðlega vernd og hér á landi sé miðað við höfðatölu. Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar sækja um vernd hér á landi sexfalt fleiri en í Noregi og Danmörku, þrefalt fleiri en í Finnlandi og nær 50% fleiri en í Svíþjóð. Í ljósi þess að þessum málum fylgir mikill kostnaður, bæði vegna afgreiðslu þeirra og uppihalds umsækjendanna, má telja ljóst að þarna sé um mikinn vanda að ræða. Áhyggjum veldur einnig að fleiri umsækjendur fengu jákvæða niðurstöðu umsóknar en nokkurt ár á undan, samtals 528. Þess vegna er hætta á að þegar faraldrinum slotar fjölgi umsóknum og jákvæðum afgreiðslum verulega verði ekkert að gert.

Enda þótt umsóknum um vernd hafi fækkað talsvert á síðustu árum voru þær engu að síður 654 talsins á liðnu ári. Er það mikill fjöldi fyrir fámenna þjóð. Eins má telja jákvætt að afgreiðslutími hefur almennt styst en sú stytting gengur þó afar hægt og enn er kerfið rúma fjóra mánuði að meðaltali að afgreiða hvert mál. Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar töldust af 654 umsækjendum 38 vera frá öruggu upprunaríki. Slíkum umsækjendum ætti að vera hægt að snúa heim án tafar. Meiri hluti umsækjenda, 331, hafði þegar fengið vernd í öðru ríki. Ætti sá hópur líka að geta horfið hratt til þess ríkis í stað þess að dvelja hér mánuðum saman.

Fyrirliggjandi tillaga snýst um að fela dómsmálaráðherra að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem hafi að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málefna útlendinga og auka skilvirkni í málsmeðferð. Áhersla verði lögð á þau markmið að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð miðist við 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir verulegri styttingu á afgreiðslutíma í málum sem lúta alþjóðlegri vernd en gildandi lög kveða á um að umsóknum sé svarað innan allt að 18 mánaða. Þessir tímafrestir geta vart talist við hóf. Dæmi um mun lengri afgreiðslutíma í málum af þessu tagi sýnast bera vitni um vanmátt stjórnsýslustofnana til að ráða við verkefnið. Er með því ekki hallað á starfsfólk heldur þau skilyrði sem því er ætlað að starfa við. Hefur þetta leitt af sér vaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins. Opinn krani á ríkissjóð samræmist ekki ábyrgri stjórn á fjármálum ríkisins. Við getum ekki haldið uppi velferðarkerfi eins og metnaður okkar stendur til við þau skilyrði sem nú eru uppi í málaflokknum, að landamærin séu galopin.

Hælisleitendur bíða í sumum tilvikum árum saman eftir að fá niðurstöðu. Með því er mikið lagt á fólk sem hingað leitar. Um leið ýtir sú staðreynd undir tilhæfulausar umsóknir. Sýnist auðsætt að slíkum umsóknum er markvisst beint að ríkjum þar sem mestir möguleikar eru á frestum og töfum á afgreiðslu. Þar sem umsækjendum fækkaði um fjórðung á milli ára fækkaði um svipaða hlutfallstölu þeim sem fengu þjónustu í verndarkerfinu og voru þeir 445 í fyrra. Þetta er engu að síður umtalsverður fjöldi og óvíst hver þróunin verður á næsta ári því að ætla má að kórónuveirufaraldurinn hafi haft nokkuð um þessa fækkun umsækjenda að segja. Má raunar furðu sæta að jafnmargir hafi sótt um og raun ber vitni miðað við fækkun flugferða og ferðahömlur og þá staðreynd að fækkun umsókna í fyrra var heldur meiri annars staðar á Norðurlöndunum. Íslendingar vilja leggja sitt af mörkum en augljóst er að Ísland hefur ekki burði til að taka við margfalt fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd en aðrar Norðurlandaþjóðir gera. Hér verður að grípa til aðgerða áður en í mikið óefni er komið.

Forsætisráðherra Dana, Mette Frederiksen, formaður danska sósíaldemókrataflokksins, systurflokks Samfylkingar ef mér skjátlast ekki, sagði á síðasta þingdegi fyrir sumarleyfi, 22. júní sl., að ekki ætti að taka við fleiri flóttamönnum en unnt væri að aðlaga þjóðfélaginu. Hún bætti við að gera skyldi kröfur til þeirra sem kæmu til Danmerkur enda fylgdust að réttindi og skyldur. Hún sagði við það tækifæri að hvort sem fólk ætti rætur í Danmörku eða utan hennar væri það jafnrétti karla og kvenna, stuðningur við lýðræðisleg gildi og danskt samfélag sem byndi fólk saman þar í landi. Þessi gildi eiga við á Íslandi. Þá kröfu verður að gera til þeirra sem veitt er alþjóðleg vernd hér á landi að þeir styðji þessi sjónarmið í orði og verki.

Á fréttavef vefmiðilsins mbl.is 23. janúar sl. er rakið að Frederiksen hafi tekið við embætti forsætisráðherra sumarið 2019 eftir að vinstri flokkar unnu sigur í þingkosningum. Í kosningabaráttunni hafði flokkur hennar, sósíaldemókratar eða jafnaðarmenn, tileinkað sér að mestu stefnu danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum, reyndar svo mjög að vart mátti greina á milli. Í stefnuræðu sinni við setningu danska þjóðþingsins 6. október sl. kom danski forsætisráðherrann víða við. Ummæli hennar um málefni hælisleitenda hljóta að vekja mikla athygli hér á landi. Hún sagði útlendingastefnu fortíðar mistök. Ríkisstjórnin myndi halda áfram strangri stefnu en meira þyrfti að koma til. Evrópska hælisleitendakerfið sagði hún að væri í raun hrunið. Með leyfi forseta voru orð hennar í lauslegri þýðingu minni: Verum hreinskilin, möguleikinn á hæli er oft kominn undir því að flóttamaður greiði fólkssmyglara og vilji hætta lífinu í yfirfylltum gúmmíbátum. Miðjarðarhafið er orðið kirkjugarður. Enn fremur sagði danski forsætisráðherrann, með leyfi forseta: Enginn flýr að gamni sínu. Eins og komið er bregðumst við bæði þeim sem flýja með milligöngu smyglara og þeim sem eftir sitja og hafa mesta þörf fyrir hjálp. Aðstoð Dana hlýtur að beinast að því fólki.

Stjórnarsáttmáli norsku ríkisstjórnarinnar er dagsettur 17. janúar 2019 og kenndur við Granavolden í Noregi. Er þar að finna ítarlegan kafla um innflytjendamál og ekki síst málefni hælisleitenda. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar eru rakin norsk sjónarmið, mjög áþekk þeim dönsku í þessum efnum.

Ræða danska forsætisráðherrans sem hér var áður vitnað til ber því glöggt vitni í hvílíkar ógöngur Danir hafa ratað í málefnum hælisleitenda. Enn fremur ber að líta til ummæla sænska forsætisráðherrans, Stefans Löfvens, fyrr á liðnu ári um að aukna glæpatíðni í Svíþjóð mætti rekja til mistaka hinnar pólitísku stefnu í útlendingamálum. Hér heima skildu gömlu kratarnir að velferðarkerfið brotnar niður ef það er ekki reist á borgaralegum gildum. Sjálfstæðisflokkurinn sem fer með þennan málaflokk virðist beygja sig undir stefnu samstarfsflokka í málefnum hælisleitenda í stað þess að tryggja örugg landamæri með markvissri löggæslu. Við verðum að hlusta og læra af reynslu nágrannaþjóða og afstýra miklum fyrirsjáanlegum vanda.

Af ítarlegri stefnuskrá danska jafnaðarmannaflokksins og einörðum málflutningi Mette Frederiksen forsætisráðherra má ráða að danskir jafnaðarmenn telja Danmörku nánast í nauðvörn vegna mistaka í stefnu liðinna ára í málefnum hælisleitenda. Jafnaðarmannaflokkurinn danski hafnar þeirri stefnu sem áður var fylgt í málaflokknum. Segir í tilvitnaðri stefnuskrá hans um þennan málaflokk að fólk á flótta setji sig í lífshættu þar sem menn af misjöfnu sauðahúsi græða stórfé á ógæfu annarra. Á þremur síðustu árum hafi 10.000 börn, konur og karlar farist eða týnst í Miðjarðarhafinu. Þessi harmleikur kalli á réttlátara hælisleitendakerfi, segir í stefnuskjali jafnaðarmannaflokksins. Hér eru borin fram mannúðleg sjónarmið án þeirrar sýndarmennsku sem stundum gætir í þeim efnum. Í þessu ljósi setja danskir jafnaðarmenn fram aðalstefnumál sitt í málaflokknum, að sett verði á laggirnar, helst í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, móttökustöð hælisleitenda utan Evrópu. Komi hælisleitendur á danska grundu skuli senda þá í móttökustöðina. Í stefnuyfirlýsingu danskra jafnaðarmanna segir að Danmörk muni taka við ákveðnum fjölda kvótaflóttamanna í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þannig fáist stjórn á hve mörgum flóttamönnum sé hjálpað í Danmörku. Í stefnu danskra jafnaðarmanna er að finna tillögur um eftirlit á landamærum, breytingar á Schengen-samkomulaginu og sendingu hælisleitenda til heimalands. Meðan ekki sé stjórn á ytri landamærum Evrópusambandsins og hætta á óhæfuverkum vofi yfir skuli Danmörk viðhalda landamæraeftirliti. Umbætur þurfi á Schengen-samkomulaginu þannig að einstök aðildarríki Evrópusambandsins ákveði stjórn á eigin landamærum. Með því ráði Danir hverjir komi inn í landið. Þetta sé grundvallaratriði til að tryggja öryggi dönsku þjóðarinnar. Norska ríkisstjórnin hefur uppi áþekk sjónarmið, eins og áður segir, og kemur fram í stjórnarsáttmála hennar. Í stefnu danskra jafnaðarmanna segir að margt af því fólki sem komið hafi til Danmerkur og Evrópu á síðustu árum sé ekki flóttamenn heldur farandfólk í leit að betra lífi. Verði samþykkt að slíkir fái vist í Danmörku muni margir leita þangað. Þetta ráði danskt samfélag ekki við. Samfélagið sjálft, velferðarkerfið og hlutskipti launafólks er undir í málinu, segir þar.

Samandregið, herra forseti: Að óbreyttu fylgjum við stefnu í málefnum hælisleitenda sem Norðurlöndin hafa horfið frá og forsætisráðherra Danmerkur lýsir sem mistökum. Þessa stefnu sem aðrir hafa aflagt sættir Miðflokkurinn sig ekki við.