151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:03]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tók skýrt fram í máli mínu að þessi 48 stunda viðmiðunarregla er um það að komast að niðurstöðu um hvort umsókn fái efnismeðferð. Síðan er gert ráð fyrir að efnismeðferð sé lokið innan sex mánaða en gildandi lög virðast miða við 18 mánuði. Við höfum ekki efni á þessu, herra forseti. Og það liggur náttúrlega líka undir í málinu að hingað koma, eins og á liðnu ári, milli 600 og 700 manns og þeir koma hingað að eigin frumkvæði. Það er sá opni krani sem ég gat um í ræðu minni, að útgjöld falla á ríkissjóð, ekki af því að Alþingi hafi ákveðið það, ekki af því að fjármálaráðherra hafi ákveðið það, ekki af því að nokkur lögbær stofnun á Íslandi hafi ákveðið það, heldur vegna þess að það er fólk úti í heimi sem ákveður að freista gæfunnar hér, eins og við sem höfum eitthvað litið á þessi mál auðvitað vitum að á við um marga sem hingað hafa komið. Þetta er rauði þráðurinn í þeirri stefnu sem hefur orðið ofan á í nágrannalöndum okkar, þ.e. að einbeita sér annars vegar að kvótaflóttamönnum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og einbeita sér hins vegar að hjálp við nauðstadda á heimaslóðum, enda er hægt að hjálpa margfalt fleira fólki með þeim hætti en að vera að leggja út í þessi útgjöld vegna hælisleitenda eins og við enn þá gerum.