151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti og líklega ekki í það síðasta sem ég ætla að ræða það sem ég nefni hér, þ.e. fjölgun starfa í hinum dreifðu byggðum. Það er dapurlegt frá því að segja að í áratugi hefur gengið afskaplega illa að færa störf í hinar dreifðu byggðir þrátt fyrir það að á vef Byggðastofnunar, frá því í desember sl., megi finna kort þar sem birtast 83 staðir í hinum dreifðu byggðum og yfir 100 starfsstöðvar þar undir sem geta tekið á móti fólki sem vinnur störf án staðsetningar. Það markmið var sett núna að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum ættu að vera án staðsetningar árið 2024, þannig að búseta hefði ekki áhrif á val á starfsfólki. Það gengur allt of hægt. Sannarlega hafa verið stigin skref og ekki skal gera lítið úr þeim. En hægt er að gera miklu betur og það þarf líka að breyta viðhorfi innan stofnananna, ekki bara í ráðuneytunum. En ég veit ekki hvaða aðferð þarf að beita til þess að þetta verði raunverulegt. Það sem hefur verið gert fram til þessa er augljóslega ekki að skila sér. Það er óásættanlegt því að við höfum svo sannarlega, held ég, uppgötvað það öll sem eitt, í tengslum við faraldurinn, að það er auðvelt að vinna ótal mörg störf á þennan hátt.

Ég ætla samt að nefna eitt sem er afskaplega ánægjulegt að mínu mati. Nú er verið að auglýsa tvö störf, þ.e. starf lögfræðings og starf sérfræðings í þjónustuveri hjá sýslumanninum á Húsavík. Það var dæmi sem kom inn á borð okkar í fjárlaganefnd og við afgreiddum hér fyrir jólin. Þar er um að ræða fyrirkomulag sérhæfðrar miðlægrar stofnunar í samstarfi við staðbundna ríkisstofnun í héraði. Þetta er hægt að gera svo miklu víðar og tryggja störf sem þurfa ekki að vera hér á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Einnig kemur fram í þessari skýrslu hjá Byggðastofnun að hægt sé að auglýsa um 900 störf án staðsetningar, 13% stöðugilda ríkisins. (Forseti hringir.) Þetta á ekki að vera svona flókið.