151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið samofið sögu hagsmunabaráttu stúdenta að berjast fyrir réttindum sínum og betri lífsgæðum, að til staðar sé nægjanlegt fjárhagslegt öryggi svo stúdentar geti stundað nám án þess að hafa stöðugar áhyggjur af framfærslu sinni. Það er almennt viðurkennt að fjárfesting samfélagsins í menntun og mannauði er góð fjárfesting. En til þess að knýja fram breytingar á kerfum þarf pólitískan vilja. Stúdentar hafa verið háværir í kröfum sínum um fjárhagslegt öryggi síðustu misserin, skiljanlega, enda þokast baráttan frekar hægt áfram þótt margt hafi vissulega áunnist.

72% íslenskra stúdenta vinna meðfram námi og er það mun hærra hlutfall en það sem þekkist á Norðurlöndum, samkvæmt EUROSTUDENT-könnuninni. Þá á 31% íslenskra stúdenta í fjárhagslegum erfiðleikum og 25% telja að vinnan hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Nýtt lánasjóðskerfi ríkisstjórnarinnar nær því miður ekki alveg utan um þennan vanda. Á það bentum við í Viðreisn á sínum tíma og komum fram með okkar tillögur um betri leið. Það þýðir nefnilega ekki, virðulegi forseti, að laga rammann ef innihaldið sjálft er ekki lagað, ef staðan er enn þannig að lánasjóðskerfið tryggi ekki framfærslu.

Heimsfaraldurinn hefur bitið fast og margir stúdentar hafa misst vinnuna. Þau atvinnutryggingagjöld, sem orðið hafa til vegna vinnu stúdenta og skila sér í Atvinnuleysistryggingasjóð, grípa ekki stúdenta sem misst hafa vinnuna. Þeir standa eftir ráðalausir milli kerfa. Það er óboðlegt. Hér er um að ræða tímabundið ástand, heimsfaraldur sem haft hefur gríðarleg áhrif á líf og líðan ungs fólks og nám þess. Að bæta við fjárhagslegum áhyggjum er ekki rétta leiðin til að koma í veg fyrir brottfall úr námi. Ég veit að fleiri þingmenn hafa blessunarlega vakið athygli á þessari erfiðu stöðu námsmanna, en það er mikilvægt að við látum þessar raddir heyrast áfram hér í þingsal. Hér getur ríkisstjórnin gert betur.