151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég minni á markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Við bæði sjáum og heyrum tilraunir til að gera lítið úr þeim með alls konar einkunnum. Ég tel þau bæði framsækin og ábyrgðarfull og vel framkvæmanleg, sem skiptir öllu máli, með endurteknum uppfærslum á aðgerðaáætlun sem er endurskoðuð árlega í samræmi við árangur. Nýjasta uppfærslan verður send út samkvæmt Parísarsamkomulaginu á næstunni. Aðalatriðin eru 55% minni losun og orðin „að minnsta kosti“ standa þar fyrir framan, ég vek athygli á því. Það er líka talað um að áföngum verði flýtt í kolefnisbindingu og það er gert með ýmsum aðferðum eins og við vitum og þróunarsamvinna er auðguð með loftslagstengdum aðgerðum. Hlutverk ríkisins í þessu öllu er að leggja fram fé, milljarða á milljarða ofan, beint í minni losun, og það tekur m.a. til þessara 55%, og líka að auðvelda að minnka losun með fé og öðrum framlögum, lögum og reglum og öðrum aðilum. Og hverjir eru það? Það eru sveitarfélög, það eru fyrirtæki, það eru stofnanir og það er almenningur. Þrír fyrstu aðilarnir geta sett sér metnaðarfull markmið sjálfir og þeir bæta við prósentustigum þannig að losun Íslendinga umfram 55% getur auðveldlega farið upp í 60–70% fyrir 2030. Þannig stöndum við í líkum sporum og þjóðir sem hafa slík markmið og ná þeim m.a. með orkuskiptum í raforkuframleiðslu og húshitun þar sem við erum á grænum grundum. Þess vegna er sá samanburður ekki sanngjarn.