151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er meira en steypa og bárujárn, meira en skjól frá veðri og vindum. Húsnæði er ekki lúxus sem á eingöngu að standa efnamiklu fólki til boða. Húsnæði er nauðsynjavara, ekki hefðbundin markaðsvara, snýst um mannréttindi. Tryggt húsnæði er staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi og við köllum því fallega orði heimili. Samkvæmt nýrri skýrslu vinnuhóps um umbætur á húsnæðismarkaði, sem ASÍ birti á mánudag, gætu allt að 7.000 manns búið í atvinnuhúsnæði á landinu, þar af 4.000 á höfuðborgarsvæðinu. Há leiga og skortur á leiguhúsnæði er talin vera helsta skýringin. Slíkur húsakostur getur skapað mikla hættu þegar eitthvað kemur upp, t.d. við eldsvoða eða þegar fólk missir einfaldlega leiguhúsnæði. Skýrslan staðfestir það sem lengi hefur verið vitað að það er mikil uppsöfnuð íbúðaþörf í landinu. Það þarf að byggja 3.000 íbúðir á ári til að vinna hana upp á næstu tíu árum. Markaðurinn hefur ekki ráðið við að leysa húsnæðisvandann og stjórnvöld ekki heldur.

Samfylkingin lagði til aðgerðaáætlun í húsnæðismálum í átta liðum árið 2018 til að tryggja betur húsnæðisöryggi fólks en ríkisstjórnin hefur einungis hrint í framkvæmd brotabroti af þeim aðgerðum á kjörtímabilinu. Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum hafa því miður verið of losaralegar og augljóslega ekki skilað nægilegum árangri. Í stað þess að vinna markvisst að varanlegum lausnum hafa stjórnvöld frekar reynt að slökkva elda þegar þurft hefur. Þessi skýrsla á því erindi við okkur öll hér inni. Það er nefnilega ekki síst okkar að tryggja öllum sem hér búa mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði og því miður, herra forseti, eigum við enn talsvert langt í land.