151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

veiting ríkisborgararéttar.

487. mál
[13:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Bara þannig að það sé á hreinu þá fær þingið alveg upplýsingar um þessi mál og það er undirnefnd hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem fer yfir þær, og fær reyndar mjög mikið af upplýsingum, svo mikið að það þarf að ríkja mjög mikill trúnaður um þær, bara svo að það komi skýrt fram. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að aðrir þingmenn hafa ekki aðgang að þessum upplýsingum og þetta ferli er skrýtið. Það verður að viðurkennast. Lykillinn að því er að bæta löggjöfina sem þegar er fyrir hendi vegna þess að við rekumst aftur og aftur á það að manneskjurnar passa ekki í boxin sem við setjum upp og löggjöf er alltaf eitthvert box. Ég er alveg sammála því að þetta sé skrýtið ferli en við verðum að hafa það áfram á meðan við erum ekki búin að lagfæra það sem þarf að lagfæra í löggjöfinni sem fyrir er. Ég held að það sé langtímaverkefni. Það verður ekki gert með einföldu frumvarpi en mér finnst mjög mikilvægt að við höfum það í huga. Þessar gagnrýnisraddir koma upp. Það er eitthvað til í þeim. En við þurfum að passa að leysa þau vandamál sem leiða það af sér að þetta ferli er jafn mikilvægt og það hefur reynst vera, en það hefur reynst mjög mikilvægt.