151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

almenn hegningarlög.

267. mál
[14:47]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarálitsins fyrir að hafa snúið við hlutverkum og hún sé í raun að svara spurningum sem ég varpaði fram í ræðu. Ég þakka fyrir það og það er ágætisábending að halda því til haga að ekki sé verið að gefa afslátt af tiltekinni háttsemi eða þeim refsiverðu brotum sem felast t.d. í dreifingu á nektarmyndum. Því var velt upp í greinargerðinni — svo ég noti tíma minn í þessu andsvari til að varpa fram fleiri spurningum, sem hv. framsögumaður metur hvort hún kemst yfir að ræða — án þess þó að þeirri spurningu sem hér er lögð fram hafi verið svarað, að kannski hefði mátt ráðast í endurskoðun á 209. gr., um blygðunarsemi, og færa þannig í orð, eins og ég nefndi í ræðu minni, þá verknaði sem um ræðir. Ég er alveg sammála því að löggjöfin þarf að vera þannig að það þarf að tilgreina skýrt nákvæmlega hvaða háttsemi er um að ræða þó að við getum öll sagt okkur í hverju blygðunarsemisbrot felast. Því er ekki svarað hér af hverju sú leið var ekki farin heldur varpað upp þeim agnúa á þeirri leið að þá myndi fyrst og fremst reyna á túlkun dómara á t.d. áhrifum af samþykki. Þá er líka fjallað um að bregðast mætti við því með því að endurskoða ákvæði um samþykki og réttaráhrif samþykkis. Það væri gaman að vita hvort nefndin hefði eitthvað fjallað sérstaklega um þá leið (Forseti hringir.) og hvort þessi lagabreyting hafi einhver áhrif á samþykkishugtakið í víðara samhengi.