151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ég ætla að beina sjónum mínum að auðlindaákvæðinu sem er risamál. Annað fer ég yfir á eftir í minni ræðu. Hæstv. forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, við erum að tala hér um þingmannamál, sagði í ræðu sinni og undirstrikaði, sem mér fannst mikilvægt, að það fæli í sér að nýtingarheimildir þyrftu að vera tímabundnar eða uppsegjanlegar. Þetta kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu. En eins og við vitum sem erum búin að vera lengi hér í þinginu þá vigta orð í greinargerð ekki mikið. Það er lagatextinn sjálfur sem skiptir máli. Það er lykilatriði. Ég spyr: Ef þetta er meiningin, ef þetta er hin raunverulega þýðing — og það eru gríðarlega miklir hagsmunir fólgnir í því hvert svar forsætisráðherra verður hér á eftir og hvort þingið hafi yfir höfuð svigrúm og heimild af hálfu meiri hluta hér í þinginu til að breyta þessu. Sér forsætisráðherra fram á að þingið taki nákvæmlega þetta inn í lagaákvæðið sjálft og hnykki á þeim raunverulega vilja sem kemur fram í greinargerðinni og vilja forsætisráðherra um að nýtingarheimildir séu tímabundnar eða uppsegjanlegar? Er forsætisráðherra að ljá máls á því að setja orðið „tímabundnar“ inn í ákvæðið?