151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég skil líka hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson sem hefur auðvitað haft mjög mikinn og einbeittan áhuga á lýðræðisþróun og þar með talið þjóðaratkvæðagreiðslum. Bara svo að ég skýri mitt mál þá er ég ekki búin að kasta því ákvæði út í hafsauga en ég taldi það ekki nægjanlega þroskað, bara út frá þeim ólíku sjónarmiðum sem ég fór yfir í framsöguræðu minni. Ég tel hins vegar að við munum þurfa að takast á við það.

Annað mál sem ég vil nefna, og tel að full færi séu til að við gætum innleitt með almennri löggjöf, er þjóðarfrumkvæði sem við höfum rætt, þ.e. að ákveðinn hluti landsmanna — klukkan er eitthvað aðeins á reiki — geti óskað eftir því að mál séu sett á dagskrá.

Varðandi auðlindaákvæði hef ég þá trú að þetta megi ekki bara snúast um fiskveiðiauðlindina. Ég held að það hafi að hluta til verið ástæðan fyrir þeim miklu deilum sem hér hafa verið. Ég get ekki lagt nægjanlega áherslu á það hversu mikil verðmæti við eigum í öðrum auðlindum sem eru eðlisólíkar. Mér finnst mikilvægt að þetta ákvæði nái líka utan um þær.

(Forseti (BN): Klukkan er á reiki af því að forseti svaf á verðinum.)