151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að umræða, jafnvel hér í þinginu, getur gagnast við að menn öðlist betri skilning á málum en í ljósi þess að átta formenn stjórnmálaflokkanna virðast á mörgum mánuðum eða einhverjum árum ekki hafa náð sameiginlegum skilningi á þessu ákvæði eða orðalagi þess þá hefur maður efasemdir um að sameiginlegur skilningur náist meðal allra 63 þingmanna. Þess vegna hefði ég talið að skýrara ákvæði væri betur til þess fallið að ná samstöðu í þinginu. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég hef hrósað hæstv. forsætisráðherra fyrir vinnuna við að reyna að ná mönnum saman um þetta ákvæði. Ég geri mér grein fyrir því að hluti af þessu tiltölulega óljósa orðalagi, eða fallega orðalagi, svo við notum nú fallegra orð um það, sé afleiðing af tilraunum hæstv. forsætisráðherra til að ná mönnum saman. En þá er engu að síður algjörlega nauðsynlegt að það myndist nægilega samræmdur skilningur á því við hvað sé átt en sérstaklega að við áttum okkur á hver raunveruleg áhrif verði á lagasetningu og eftirfylgni gildandi lagasetningar. En það er allt óljóst enn þá því að þessi vinna kláraðist ekki. Það er ekki hægt að segja til um með nokkurri vissu hver verða hin raunverulegu áhrif þessa ákvæðis eins og það lítur út núna.