151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fagna því að Samfylkingin sé jákvæð þegar kemur að því að reyna að ná saman, það er þá líklega helst um umhverfisákvæðið sem við erum búin að vera að fjalla hvað mest um, og jákvæð gagnvart breytingum á forseta- og framkvæmdarvaldi og ýmsu öðru sem hv. þingmaður kom inn á. Það er auðvitað það sem er fram undan. Þetta er komið hingað og nú þurfum við að hjálpast að við það hér á þinginu að reyna að finna út úr því hvort okkur auðnist ekki að klára verkefnið. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Hv. þingmaður endaði á dálitlu sem mig langaði aðeins að ræða betur við hann, sem kemur fram í tillögu hans ásamt fleiri þingmönnum. Mér finnst það ekki skýrt í þeirri tillögu en mér finnst það hins vegar vera skýrt sem þingmaðurinn kom inn á í lok síns máls, þ.e. rekstur á samfélagslegum grunni og hvernig hann muni rúmast innan auðlindaákvæðisins þegar talað er um eðlilegt gjald og til tiltekins hóflegs tíma, eða þegar talað er um fullt gjald. Getum við náð niðurstöðu um eðlilegt eða fullt gjald? Verðum við einhvern tímann sammála um það? Það er það sem ég á við. Getum við náð einhverri niðurstöðu í gegnum það? Við höfum ekki talað fyrir því að fara með alla skapaða hluti á markað. Ég er kannski líka að velta því hér upp. Hv. þingmaður nefndi vatns- og hitaveiturnar. Getum við gert ráð fyrir því að opinberir aðilar eigi að greiða eðlilegt gjald af þeirri notkun? Getur það bundið hendur löggjafans (Forseti hringir.) þegar kemur að því að ráðast í verkefni sem eru rekin á samfélagslegum grunni en ekki í ábataskyni?