151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hún var áhugaverð eins og oft. Ég er samt pínu ringlaður yfir einu, þ.e. hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér lýðræðislega aðkomu þjóðarinnar og hvaða þjóðarvilja beri að virða hverju sinni. Hæstv. ráðherra fór nefnilega í það að skoða mætti skiptingu á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og það er sem tónlist í mínum eyrum. Við ættum auðvitað að gera það eins og við myndum gera ef við værum að ræða frumvarp til nýrrar stjórnarskrár á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs. Því miður erum við ekki að því í dag en ég er sammála hæstv. ráðherra um að það sé grundvallaratriði og spennandi að ræða það. Ég hlakka til að taka nánari umræðu við hæstv. ráðherra um það.

Aftur á móti gerði hæstv. ráðherra athugasemd við að hér væru tillögur um að breyta breytingarákvæði stjórnarskrár þannig að þing þyrfti að staðfesta og kjósendur þyrftu að staðfesta, sem væri lýðræðisaukning, frekar en að kjósa þyrfti aftur til nýs þings. Hann vísaði þar til þjóðaratkvæðagreiðslu um núverandi breytingarákvæði, væntanlega frá lýðveldisstofnun. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að það ákvæði er 61. gr. stjórnarskrár um hin sérstaklegu málefni Íslands. Í nýju frumvarpi eru fyrstu orðin, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“

Upphafsorðin í stjórnarskránni sem hæstv. ráðherra virðist telja það lýðræðislega eru, með leyfi forseta:

„Vér, Christian hinn Tíundi af guðs náð, konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg, gjörum kunnugt …“

Virðulegi forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti aðeins skýrt skilning sinn á aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku.