151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar svo, bara þannig að það sé alveg á hreinu, að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands byrjar á orðunum: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“

En hvernig sé ég fyrir mér aðkomu þjóðarinnar? Ég tel að hún skipti miklu máli og ég vísa til þess að þingið verður að rísa undir ábyrgð sinni. Þá er ég að horfa til þess fyrirkomulags sem var ákveðið hér á sínum tíma, þegar ég var reyndar í stjórnarandstöðu, að þingið bara gaf frá sér verkefnið, gafst upp á því og sendi málið í raun og veru til einhvers konar nefndar sem var á endanum kosin með meirihlutavaldi á Alþingi. Það er það sem ég geri athugasemdir við.

Við getum vel sammælst um að eftir að mál hefur verið afgreitt hér á þinginu og tekist hefur um það ágætissamstaða þá látum við reyna á þjóðarviljann. Mér finnst fara ágætlega á því og ég sé t.d. ekkert að því að eftir að tvö þing hafa samþykkt það þá sé einhvers konar öryggisventill í því að málið gangi til þjóðarinnar. Ég get alveg séð það fyrir mér. En þingið verður að hafa frumkvæðið.