151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[14:16]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Forseti. Mig langaði til að koma aðeins inn á, til viðbótar við fyrri ræðu mína, netöryggismálin. Margir hafa nefnt aukið samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og það er náttúrlega málefni sem við höfum rætt nokkrum sinnum í þingsal. Ég held að þar sé vettvangur fyrir nánara samstarf þjóðanna, sérstaklega hvað varðar netöryggismálin.

Annað sem mig langaði til að nefna í dag er lýðræðið. Einhverjir hafa nefnt jafnréttismálin, að þar sé einmitt vettvangur því að þar höfum við Íslendingar góða sögu að segja og viljum gjarnan auka samstarfið á sviði mannréttinda og þá sérstaklega jafnréttismála við Bandaríkin. En í aðdraganda kosninganna, ekki bara núna heldur líka síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum, hefur lýðræði verið mikið til umræðu, hvers virði það er og hversu brothætt það er. Því tengjast hlutir eins og upplýsingaóreiða og falskar fréttir sem grafa undan lýðræðinu. Það hefur sýnt sig mjög greinilega í Bandaríkjunum í kringum þessar kosningar. Norðurlöndin eru mjög framarlega á þessu sviði og við í Norðurlandaráði höfum lagt áherslu á lýðræðið og í formennskutíð Íslands 2020 í Norðurlandaráði var eitt af okkar áhersluatriðum í formennskuáætluninni að standa vörð um lýðræðið með áherslu á upplýsingaóreiðu og falskar fréttir. Ég sæi fyrir mér samstarf á þessu sviði við Bandaríkin, ekki endilega bara Ísland (Forseti hringir.) heldur jafnvel Norðurlöndin og Bandaríkin. (Forseti hringir.)

Já, tíminn er liðinn. Ég þakka fyrir gott hljóð og hlakka til að heyra svör hv. þingmanns og ráðherra við fram komnum spurningum.