151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[14:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þeim jákvæðu tónum sem mér heyrast vera hér almennt í þingsal varðandi forsetaskiptin og líka þessa skapandi hugsun og tillögur sem koma fram í umræðunni um samskipti okkar við nýjan forseta og nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna. Munurinn á Joe Biden og Donald Trump er ótrúlega áberandi en hvergi er munurinn augljósari en þegar þeir tala um orsakir og afleiðingar hlýnunar jarðar og mannréttindi og aðgerðir í þeim málaflokkum. Stefna Trumps í loftslagsmálum var ekkert minna en hörmulegt slys enda voru undir hans stjórn um 200 reglugerðir og lög er varða umhverfis- og loftslagsmál veikt eða hreinlega afnumin.

Í setningarræðu sinni talaði Joe Biden um fjögur meginatriði; Covid-19, efnahagslegan samdrátt, kynþáttahyggju og rasisma og loftslagsbreytingar. Af því að sumir hafa talað um að þessi umræða fari of fljótt af stað þá vil ég minna á að á fyrstu dögum sínum í embætti lét Joe Biden aðgerðir fylgja orðum. Bandaríkin eru aftur orðinn þátttakandi í Parísarsamkomulaginu. Hann stöðvaði framkvæmdir við Keystone XL-leiðsluna og dró til baka um 100 reglugerðir sem Trump gaf út til að gefa í í nýtingu á jarðefnaeldsneyti og veikingu í umhverfisvernd. Við skipan á ráðherrum í ríkisstjórn var greinilegt að loftslagsmálin eru alltumlykjandi hjá nýrri ríkisstjórn Bidens, hvort sem um er að ræða fjármálaráðherra og áherslurnar þar á loftslagsbreytingar og græna skattstefnu, nýjan samgönguráðherra sem leggur gríðarlegan þunga á loftslagsmálin í sínum áherslum og svo auðvitað sérstakan ráðgjafa í loftslagsmálum, John Kerry, sem hefur alveg sérstaka stöðu líka þegar kemur að þjóðaröryggismálum.

Mér fannst líka gott að heyra hjá hæstv. utanríkisráðherra að loftslagsmálin yrðu sterkur snertiflötur í samskiptum ríkjanna. Ég endurtek tillögu mína um sérstakan loftslagssamning milli ríkjanna tveggja. Og af því það var spurt sérstaklega um hann þá vil ég minna á að Biden hefur lagt áherslu á að tengja efnahagsaðgerðir og fjölgun starfa beint við aðgerðir í þágu loftslagsmála með þróun umhverfisvænna orkugjafa og innviðauppbyggingu með áherslu á sjálfbærni. Þar eru tækifæri fyrir Ísland. Þar eru tækifæri fyrir okkur til að efla okkur á þessu sviði.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson (Forseti hringir.) nefndi um kynjajafnréttið, tek algerlega undir það. Biden og hans fólk mun leggja áherslu á það og hafa gert það nú þegar, kynjajafnrétti, (Forseti hringir.) réttindi hinsegin fólks, réttindi og vernd fyrir innflytjendur og aðra. Allt eru þetta góð og mikilvæg skilaboð sem hér hafa komið fram. Ég held að þetta styrki okkur, þingið og ráðherra sömuleiðis,(Forseti hringir.) í því að bera á borð þessi skilaboð frá þinginu eftir fjögurra ára (Forseti hringir.) hnignunartímabil Bandaríkjanna. — Ég biðst velvirðingar, herra forseti, á að fara fram yfir tímann.