151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að byrja á að þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað, og Íslandsdeildinni fyrir skýrsluna, og sérstaklega formanni Íslandsdeildar, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir ræðuna. Nú er ég þingmaður sem á ekki sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þannig að mig langaði jafnframt kannski að bera fram spurningar eða hugðarefni og hv. þingmenn velja auðvitað sjálfir hvort þeir bregðast við því. En ég ætla fyrst að segja að það er ánægjulegt að heyra talað um að þrátt fyrir Covid hafi náðst að halda uppi svo miklu samstarfi. Ég hygg nefnilega að við höfum getað lært ýmislegt á þessum hamförum, m.a. þetta með fjarfundabúnaðinn og hvað hægt er að gera margt með honum þó að hann komi auðvitað aldrei í staðinn fyrir að hitta fólk og ræða málin. En maður sér fyrir sér að það geti verið ákveðin góð viðbót við það starf.

Mér fannst verðlaunaafhendingin á RÚV alveg einstaklega skemmtileg og flottur viðburður og bara til mikillar fyrirmyndar hvernig var hægt að leysa úr þessu. Ég ætlaði líka að segja að það sem ég hélt að hefði verið þing Norðurlandaráðs við upphaf þingsins, en var þá þessi sérstaki fundur sem var opinn fleirum, var mjög áhugavert og skemmtilegt. Ég man að þar kom fram ein spurning til forsætisráðherranna um samstarf varðandi bólusetningarskírteini eða skírteini fyrir þá sem væru með mótefni. Mér var eiginlega svolítið brugðið eða ég var ekki alveg nógu sátt við það hvernig svör norrænu forsætisráðherranna voru nema þá þess íslenska, sem mér fannst tala fyrir þess konar samstarfi og að það væri mikilvægt. En mér fannst leiðinlegt að heyra hvað aðrir drógu úr mikilvægi þess að Norðurlöndin gætu unnið saman í þessum faraldri og haldið þá alla vega uppi ferðaþjónustu innan svæðisins.

Það sem mig langaði kannski aðeins að spyrja út í eða varpa hér fram er skýrsla Björns Bjarnasonar sem hann skrifaði fyrir utanríkisráðherra og ég veit að hefur verið kynnt utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Mig langar að vita hvort eitthvað hafi verið fjallað um hana og hvort umræðan sé eitthvað komin af stað meðal þingmanna um eina af tillögunum sem þar eru, um að Norðurlöndin komi sér saman um ákveðna stefnu um viðbrögð við ásókn Kínverja inn á norðurslóðir. Kínverjar hafa sýnt norðurslóðamálum mikinn áhuga og hafa eins og öll ríki á jarðarkúlunni ástæðu til að hafa áhyggjur og sýna áhuga á því sem þar er að gerast. En það hefur líka valdið ákveðnum ugg hjá sumum smærri ríkjum og sumir hafa áhyggjur af því að þetta sé að verða svolítil stórveldabarátta. Þannig að mér finnst hafa farið einkar vel á þeirri tillögu að Norðurlöndin ræði þetta, að svolítil greining verði gerð á því hvar hagsmunir þessa svæðis liggi þegar að þessum málum kemur. Og ég vil því alla vega hvetja til þess, ef það hefur ekki farið af stað nú þegar, að þau mál verði rædd. Þó að þau verði kannski sett í einhvern formlegan farveg hjá utanríkisráðherrum Norðurlandanna þá finnst mér líka mikilvægt að við þingmenn ræðum þessi mál.

Hv. þingmenn komu aðeins inn á netöryggismálin sem eru auðvitað risastórt mál hjá okkur, og þessar fjölþátta ógnir eins og það er kallað. Ég veit ekki hvort margir þarna úti skilja þetta orðalag, fjölþátta ógnir, en netöryggi fellur þar undir. Við erum ekki lengur að tala um öryggismál bara út frá einhverjum skriðdrekum og landhernaði eða slíku, heldur er þetta orðið miklu flóknara og oft erum við að tala um öryggi út frá náttúruhamförum og netöryggi og fleira þess háttar. Það hefur hvarflað að manni að Norðurlandasamstarfið sé mjög góður vettvangur þegar kemur að þeim málum, að takast á við þessi stóru mál sem við vitum að er ekki hægt að vinna í öllu alþjóðasamstarfi. Það er bara þannig að þar eru löndin líka að takast svolítið á en maður hefur oft ímyndað sér að Norðurlandasamstarfið væri gott til þess að skoða öryggismálin.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, ég sé að mér tókst að kalla fram andsvör og vonandi þá einhver svör eða samtöl um þessa punkta mína.