151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

félagsleg undirboð í flugstarfsemi.

[13:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég hef verið í sambandi við forsvarsmenn FÍA og það hefur líka ráðuneytisstjóri og ráðuneytið og eins Vinnumálastofnun og það í tiltölulega góðu sambandi. Staða þessa máls er lýtur að undirstofnun félagsmálaráðuneytisins í dag er sú að Vinnumálastofnun, sem hefur ákveðið hlutverk þegar kemur að félagslegum undirboðum en það snýr fyrst og fremst að starfsmannaleigum og útsendum starfsmönnum, er núna að kalla eftir upplýsingum. Við höfum verið í daglegum samskiptum við þessa aðila og stofnunin er að kalla eftir upplýsingum sem tengjast málinu frá Bláfugli. Ég veit af því að í gær eða dag áttu að berast upplýsingar frá Bláfugli til Vinnumálastofnunar, ég veit ekki hvort þær eru komnar núna en það var búist við því að þær kæmu fyrir hádegið, þannig að hægt væri að meta næstu skref í málinu, meta hvort þetta heyri undir eftirlit Vinnumálastofnunar eða ekki og með hvaða hætti verði þá brugðist við.

Ég tek bara undir með hv. þingmanni um alvarleika þessarar deilu og þess sem þarna er að gerast. Við metum það sem mjög alvarlegt. Við höfum verið í mjög góðu sambandi við þá aðila sem þarna eiga hlut að máli, við FÍA. Ég vænti þess að á allra næstu dögum muni Vinnumálastofnun geta tekið málið til efnislegrar meðferðar en hún hefur einfaldlega verið að kalla eftir gögnum og upplýsingum til þess að geta gert það.