151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

aðgerðir á landamærum.

[13:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er einmitt nauðsynlegt að fá skýr svör og þetta var nokkuð skýrt; breytingar í maí þegar það verður einföld skimun o.s.frv. En ég velti því fyrir mér á hvaða stað við verðum þá með bólusetningar og takmarkanir innan lands. Það eru þær sem ég hef sérstakar áhyggjur af varðandi ferðasumar og ýmislegt svoleiðis, stöðu leikhúsa t.d. og ýmissa annara viðburða sem við erum að reyna að rýmka um hérna. Væri ekki gott að gera aðra könnun um útbreiðslu mótefnis eins og var gert eftir fyrstu bylgjuna til að sjá hvernig önnur bylgjan fór út í samfélagið og til þess að við sjáum umfang vandans sem við glímum við í tengslum við bólusetninguna í framhaldinu? Það ætti væntanlega að skipta okkur máli þegar við erum að skoða hvernig sjúkdómurinn og faraldurinn trappast niður og á hvaða tímum við getum aflétt takmörkunum innan lands.